Innlent

Síldin sem drapst er sjö milljarða virði

Gissur Sigurðsson skrifar
Frá hreinsunarstarfi í Kolgrafafirði.
Frá hreinsunarstarfi í Kolgrafafirði. Mynd/ Vilhelm.
Þrátt fyrir að um 50 þúsund tonn af síld hafi drepist í Kolgrafafirði í desember og í byrjun febrúar, er það ekki nema helmingur af því sem drepist hefur árlega úr stofninum vegna sýkinga, undanfarin ár. Andvirði síldardauðans núna er hátt í sjö milljarðar króna.

Þessi 50 þúsund tonn sem drápust núna eru talin vera um það bil 12 prósent af stofninum, og þar sem verulega er farið að draga úr síldardauða vegna sýkingar, vegur það á móti tjóninu núna. Það bendir því flest til þess að kvótinn fyrir vertíðina í haust verði ekki skertur um 50 þúsund tonn, eins og blasað gæti við, heldur um mun minna magn og jafnvel ekki neitt.

Stórvirkar vinnuvélar hófu í gær að urða síldina í fjörum Kolgrafarfjarðar. Það er gert með því að gröfur grafa rásir í fjöru og jarðýtur ýta svo síld ofan í þær og fergja svo yfir með möl og sandi. Þá er byrjað að hreinsa upp grútarköggla og er þeim fargað á sameiginlegum förgunarstað Vestlendinga. Árangur af þessu verður metinn á morgun, en ríkissjóður stendur straum af þessari aðgerð, sem er óháð nýju vöktunarverkefni í firðinum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×