Innlent

Skólastjóri segir samræmt próf í íslensku fáránlegt

Haukur Viðar Alfreðsson skrifar
Hafsteinn Karlsson er skólastjóri í Salaskóla og bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar í Kópavogi.
Hafsteinn Karlsson er skólastjóri í Salaskóla og bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar í Kópavogi.
Hafsteinn Karlsson, skólastjóri í Salaskóla og bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar í Kópavogi, gagnrýnir samræmt próf í íslensku í 10. bekk sem fram fór í gær harðlega og segir að sér blöskri áherslurnar.

Í prófinu sé mikið af texta, sumt af honum sé hátt í 800 ára gamall, spurningar úr textanum innihaldi gildrur og lögð sé meiri áherslur á undantekningar í málinu en almenna íslenskukunnáttu.

„Við erum kenna börnunum að nota tungumálið á skapandi hátt og til þess að tjá sig bæði í töluðu og rituðu máli. Svo kemur eitthvað próf sem leggur línurnar fyrir móðurmálskennslu og það er bara aftan úr grárri forneskju,“ segir Hafsteinn sem íhugaði að leggja prófið ekki fyrir nemendurna en hann segist verða að fara að lögum. Hann sér þó eftir þeim tíma sem fari í að „undirbúa unglingana undir vitleysu“.

„Þetta er til að drepa niður áhuga krakka á móðurmálinnu og hrekja þau frá því að nota það sem tjáningamiðil. Það er verið að reyna að nappa þau á vitleysunum. Það er ekki það sem við eigum að gera. Það skiptir ekki öllu máli hvort stafsetningin sé hárrétt eða hvort það sé allt rétt sagt málfræðilega.“

Hafsteinn tjáði sig einnig um prófið á Facebook-síðu sinni í gær. „Þetta próf gagnast okkur ekkert í að meta eða greina kunnáttu 10. bekkinganna og guð forði okkur frá því að nota það til að leggja línur til næstu mánaða. Nú segi ég stopp - hættum þessu rugli.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×