Enski boltinn

Anelka gerði eins árs samning við West Brom

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Franski framherjinn Nicolas Anelka.
Franski framherjinn Nicolas Anelka. Mynd/AP
Franski framherjinn Nicolas Anelka gekk í kvöld frá eins árs samningi við enska úrvalsdeildarfélagið West Bromwich Albion og verður þetta sjötta enska félagið hans á ferlinum. Þetta kemur fram í enskum fjölmiðlum.

Anelka er 34 ára gamall en hann reyndi fyrir sér í Kína (Shanghai Shenhua) og á Ítalíu (Juventus) eftir að hann yfirgaf Chelsea í ársbyrjun 2012. Frakkinn náði sér ekki á strik á hvorugum staðnum.

Anelka hittir fyrir knattspyrnustjórann Steve Clarke hjá West Brom en þeir unnu saman í stuttan tíma hjá Chelsea árið 2008.

Anelka mun vera ætlað að fylla í skarð Romelu Lukaku sem fór aftur til Chelsea en Lukaku skoraði flest mörk fyrir WBA á síðasta tímabili.

WBA verður tíunda félag Nicolas Anelka á ferlinum en hann hefur spilað fyrir fimm önnur félög í Englandi: Arsenal (1997–1999), Liverpool (2001-02), Manchester City (2002–2005), Bolton Wanderers (2006–2008) og Chelsea (2008–2012).




Fleiri fréttir

Sjá meira


×