Innlent

VR kynnir nýtt vopn í jafnréttisbaráttunni

VR hefur sagt launamun kynjanna stríð á hendur með nýrri aðferðafræði.
VR hefur sagt launamun kynjanna stríð á hendur með nýrri aðferðafræði. fréttablaðið/gva
VR hefur þróað svokallaða Jafnlaunavottun, sem ætluð er fyrirtækjum og stofnunum, þar sem launagreiðendum gefst tækifæri til að sýna svart á hvítu að launastefna þeirra og mannauðsstjórnun mismuni ekki körlum og konum.

VR hefur unnið að þróun Jafnlaunavottunarinnar í tæp tvö ár og byggir vottunin á nýjum jafnlaunastaðli sem Staðlaráð Íslands gaf út á síðasta ári. Forsendur þess að fyrirtæki eða stofnanir innleiði staðalinn eru meðal annars að fyrir liggi mótuð launastefna, að launaviðmið hafi verið ákveðin og að störf séu flokkuð samkvæmt kerfi Íslenskrar starfagreiningar, ÍSTARF 95. Samkvæmt niðurstöðum launakönnunar 2012 hafa konur í VR að meðaltali 14,9% lægri laun en karlar og þegar tekið hefur verið tillit til allra áhrifaþátta á launin er óútskýrður launamunur 9,4%.

„Þetta er óásættanlegt að okkar mati og hvorki félagsmenn VR né aðrir á vinnumarkaði geta beðið lengur eftir því að allir sitji við sama borð. Þessa baráttu verður að heyja bæði á vettvangi stéttarfélaganna og innan veggja fyrirtækjanna. Þess vegna hleypir félagið nú af stokkunum Jafnlaunavottun VR,“ segir Stefán Einar Stefánsson, formaður VR.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×