Innlent

Gripnir í glugga apóteks

Mynd úr safni.
Lögreglan hafði í nógu að snúast í nótt.

Tveir voru gripnir glóðvolgir á miðnætti með poka fulla af góssi, skríðandi út um glugga apóteks í austurbænum, en þeir höfðu skömmu áður brotið rúðu þar og farið inn. Söngurinn í vælandi öryggiskerfinu vakti forvitni svefnvana vegfarenda sem gerði lögreglu viðvart. Gista þeir nú fangageymslu og bíða yfirheyrslu.

Þá var einn gripinn við að fara inn í bíla í austurborginni með fulla vasa af sólgleraugum og öðrum lausamunum úr bifreiðum sem urðu á vegi hans. Hafði þessi séð sér leik á borði og gengið milli bifreiða og farið inn í þær sem voru ólæstar.

Lögreglumenn ætluðu að hafa afskipti af ökumanni á Reykjanesbraut við Kópavog á fjórða tímanum í nótt. Ökumaðurinn sinnti ekki stöðvunarmerkjum lögreglu og hófst eftirför þar sem ökumaðurinn ók í Hafnarfjörð og var síðar stöðvaður þar. Þá hafði ökumaðurinn ekið yfir gatnamót mót rauðu ljósi og ekki virt umferðarmerki eða stöðvunarmerki lögreglu. Ökumaðurinn er grunaður um akstur bifreiðar undir áhrifum fíkniefna og var hann að sýnatöku lokinni vistaður í fangageymslu fyrir rannsókn máls.

Einn var fluttur á slysadeild eftir umferðarslys sem varð á gatnamótum Breiðholtsbrautar og Reykjanesbrautar um klukkan níu í morgun en meiðsl hans eru ekki talin alvarleg. Slysið varð með þeim hætti að fólksbíl var ekið aftan á rútu og eru báðir bílarnir mikið skemmdir.

Töluverður fjöldi skemmti sér á ísfirsku hátíðinni Aldrei fór ég Suður í gær og nótt og gekk skemmtanahald vel að sögn lögreglu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×