Innlent

Ýtt undir staðalímyndir kynjanna í málshætti?

Haukur Viðar Alfreðsson skrifar
Elísabet segir siðferði ekki eingöngu kvenna.
Elísabet segir siðferði ekki eingöngu kvenna. Mynd/GVA
„Mér finnst þetta svo mikill óþarfi og það verður eiginlega að spyrja þau hjá Góu hvaða skilaboðum þau eru að koma áleiðis með því að setja þetta í egg barnanna," segir Elísabet Ronaldsdóttir klippari, en yngsta barn hennar dró óvenjulegan málshátt úr eggi sínu í morgun.

Málshátturinn var svohljóðandi: „Karlmennirnir búa til lögin, en konurnar siðferðið," og kom úr páskaeggi frá Góu.

„Þetta er þessi gamla mýta um að karlar eigi að setja lög og umgjörð í samfélaginu og að siðferði okkar byggi á hegðun kvenna. Áhersla sem okkur mislíkar stórum hjá öðrum menningarsamfélögum en virðumst blind fyrir í okkar eigin menningu. Mér mislíkar þessi áhersla því hún á ekki heima í okkar samfélagi á okkar tímum."

Elísabet vill þó ekki ganga svo langt að segja málsháttinn gera lítið úr körlum eða konum.

„Nei, þetta gerir ekki lítið úr neinum nema þeim sem halda þessu fram sem einhvers konar sannleika. Skilaboðin sem þarna er verið að senda eiga ekki við í dag, því við vitum að það er nauðsyn að bæði karlar og konur komi að lagasetningu, og siðferði er ekki eingöngu kvenna. Málshættir eru ekki náttúruafl og eðlilegt að þeir breytist í takt við upplýstara samfélag"

Málshátturinn vakti litla lukku á heimilinu.
Elísabet hyggst skrifa bréf til Góu, og hún segist ekki munu kaupa af þeim egg næstu árin.

„Mér finnst nauðsynlegt að við sem neytendur séum vakandi og beitum því valdi sem við þó höfum. Það virkjar lýðræðið ef við sýnum ábyrgð með því að velja og hafna vegna þess að fyrirtæki, eins og í þessu tilfelli Góa, verða að skilja að þau verða að vanda sig. Þá skiptir ekki máli hvort um er að ræða málshátt í páskaeggi eða iðnaðarsalt í snúðum. Við verðum að taka ábyrgð og stjórna kaupum út frá því hvernig samfélagi við viljum lifa í og hvernig fyrirtæki standa sig."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×