Innlent

Fyrsta páskapredikun biskups í Dómkirkjunni

Agnes M. Sigurðardóttir biskup Íslands, flutti fyrstu páskaprédikun sína í Dómkirkjunni í Reykjavík í messu í morgun. Hún gerði Guðmundar- og Geirfinnsmálið meðal annars að umfjöllunarefni í prédikun sinni

Agnes sagði fólk hafa verið dæmt saklaust hér á landi fyrir fjörtíu árum meðal annars vegna þess að lýðurinn hrópaði eins og í Ísrael forðum. Opinberar aðgerðir hafi verið framkvæmdar til þess að friða lýðinn.

Þá sagði hún að við ættum að sýna þeim skilning sem fylgja ekki fjöldanum, það sé löstur á samfélagi okkar að vilja steypa alla í sama mót. Einelti sé alvarleg meinsemd í samfélaginu, það verði að breyta hugsunarhættinum og berjast gegn því samfélagsmeini sem einelti er. Ofbeldi og valdníðsla megi ekki hafa síðasta orðið.

Agnes sagði okkur ekki lifa í ofbeldislausum heimi en við mættum ekki vera skeytingalaus gagnvart því eða láta ótta stjórna aðgerðarleysi. Hún sagði baráttu gegn hinu illa aldrei til einskis því fyrr eða síðar muni hið góða sigra, páskarnir boði lífið og kærleikann, réttlætið og friðinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×