Skoðun

Samhjálp í 40 ár – til hjálpar í eyðimörk alkóhólismans

Karl V. Matthíasson skrifar
Þó að Samhjálp hafi starfað í 40 ár og aðrir bæst í hópinn með kröftugum hætti er greinilegt að þörfin fyrir hjálp og aðstoð við alkóhólista fer síst minnkandi. Á hverjum degi eru mörg hundruð manns í beinum úrræðum vegna alkóhólisma í okkar fámenna landi.

Hér er ég að tala um úrræði Samhjálpar, SÁÁ, Krýsuvíkursamtakanna og 33a, ásamt áfangaheimilum sem rekin eru af Samhjálp, SÁÁ, Reykjavíkurborg og á vegum annarra samtaka og einstaklinga. Ef við bætum að auki við öllu því fólki sem fer í dag í einhvers konar viðtöl og stuðning með reglulegum hætti vegna afleiðinga sjúkdómsins má ljóst vera að fjöldinn skiptir enn fleiri hundruðum. Þá getum við einnig bætt við langflestum þeirra sem nú eru í fangelsi, en ástæðu fangadvalar fjölda fanga má rekja til alkóhólisma.

Þeir sem ekki eru alkóhólistar en þjást vegna þess að áfengi og önnur vímuefni eru í nánasta umhverfi þeirra eru gríðarlega margir. Svo getum við rakið margs kyns sjúkdóma, slys, óhöpp, annan óskunda og jafnvel fjölskylduharmleiki til áfengis eða annarrar vímuefnaneyslu. Sjúkt sálarástand í kjölfar áfengis og annarrar vímuefnaneyslu er einnig ástæða heimilisofbeldis í mjög mörgum tilvikum.

Ótrúlegur kostnaður

Það er alveg ljóst að áfengi og önnur vímuefni valda miklum þjáningum um allt samfélagið með ótrúlegum kostnaði. Fyrir um það bil einni öld var þjóðin spurð að því í þjóðaratkvæðagreiðslu hvort áfengi skyldi vera lögleg neysluvara hér eður ei. Og þjóðin sagði nei – áfengi skal bannað. Og við getum spurt: Hvernig stendur á því að ein þjóð ákveður í einni þjóðaratkvæðagreiðslu að banna áfengi? Hvað hefur eiginlega gengið á til þess að svona bann yrði samþykkt? Svarið er náttúrulega augljóst: Áfengi hefur valdið miklum þjáningum og dauða.

Bannárin stóðu ekki lengi yfir en ljóst er að á þeim tíma sem bannið var í gildi má segja að fátækrahjálpin hafi þurft að deila út miklu, miklu minna fé en áður og lögreglan hafði eiginlega mjög lítið að gera, jafnvel svo lítið að fangelsi voru um tíma notuð sem vörugeymslur.

En nú er öldin önnur. Í hverri einustu viku heyrum við og lesum um endalausar þjáningar, hörmungar karla, kvenna og barna sem brotna niður vegna þessa vá- og voðagests sem áfengi og önnur vímuefni eru.

Samhjálp hefur þá hugsjón að rétta því fólki hjálparhönd sem orðið hefur fyrir barðinu á alkóhólismanum og hefur hún unnið að því í 40 ár. Þjóðin fagnar með Samhjálp á þessu mikilvæga afmælisári því þúsundir hafa beint og óbeint notið hjálpar og stuðnings Samhjálparstarfsins sem eflist með degi hverjum.

Ekkert er gleðilegra en að komast út úr skuggalífi hinnar myrku neyslu og sjá fólk sem eitt sinn lifði í sorg sjúkdómsins, eymd og volæði verða að fólki sem eignast hamingjusamt og gleðiríkt líf. Að því mun Samhjálp halda áfram að vinna með kærleikann að leiðarljósi um ókomin ár.




Skoðun

Sjá meira


×