Innlent

Keyrt yfir leiði í Fossvogskirkjugarði

Fanney Birna Jónsdóttir skrifar
Ekið hefur verið inn á leiðin við veginn í garðinum.
Ekið hefur verið inn á leiðin við veginn í garðinum.
„Búið var að keyra inn á leiði foreldra minna og annarra sem liggja meðfram götunni inn í garðinn að vestanverðu og virðist þetta hafa verið gert ítrekað,“ segir Ólafur Einarsson sem fór með fjölskyldu sinni í Fossvogskirkjugarð í gær til að leggja kerti á leiði foreldra sinna.

Hann segist hreint ekki hafa verið ánægður með það sem hann sá þar.

„Mér finnst þetta vera virðingarleysi og óskiljanlegt framferði. Ég hef ekki trú á a þetta sé gert í ásetningi vegna þess að keyrt hefur verið yfir flest leiðin ítrekað í fremstu röðinni,“ segir Ólafur.

Hann segir götuna ekki breiða í garðinum og greinilegt að fólki hefur legið mikið á eða umferðarhnútur myndast. Bílstjórar fari þannig inn á leiðin þegar þeir mæta öðrum bílum eða þegar ef bílum hefur verið lagt í götunni.

„Næsta skref hjá mér er að hafa samband við Kirkjugarða Reykjavíkur en ef ég fengi að ráða væri ekki leyft að aka bifreiðum inn í garðinn nema með undanþágu,“ segir Ólafur sem tók myndir máli sínu til stuðnings.

„Ég tel að þetta sé hvorki Kirkjugörðunum til sóma né þeirra sem hafa stundað þetta,“ segir Ólafur að lokum.

Ólafur segir framferðið ekki til sóma.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×