Innlent

Lægðin virðist hafa tognað á ökkla

Stefán Árni Pálsson skrifar
Vísir fjallaði í gær um eina dýpstu lægð sem sem sést hafi á Norður-Atlantshafi á 21. öldinni á aðfangadag. Samkvæmt veðurfræðingnum Trausta Jónssyni virðist lægðin hafa tognað á ökkla rétt á síðustu metrunum en það gæti farið svo að vindstrengurinn verði eins sterkur á morgun og fyrst var áætlað.

Hér að neðan má sjá veðurkort frá Evrópureiknimiðstöðinni sem sýnir stöðuna klukkan 18 í dag.  

„Þarna er lægðin komin „of langt“ og er aðeins 944 hPa í lægðarmiðju. Hún hefur misst af stefnumóti við það sem við getum kallað veðrahvarfafleyg . Hann situr eftir sem sérstök lægðarmiðja aftan við aðallægðina. Stefnumótið átti að eiga sér stað um það bil þar sem rauða stjarnan er á myndinni. En ef marka skal líkanið á aðallægðin þó að hala hina inn og dýpka niður fyrir 930 hPa - en það er ekkert met - ekki einu sinni fyrir öldina því enn lægri tala sást í fyrra,“ segir Trausti á bloggsíðu sinni.

„Hvað sem þessu líður er lægðin samt óvenjudjúp og niðurstaða dýptarkeppninnar hefur engin áhrif á veður hér á landi. Vindstrengurinn sem fylgir lægðinni að norðvestanverðu er nær sá sami og spáð var í gær. Hann er á kortinu nærri því sólarhring frá því að ná til Íslands. Vestfjarðastrengurinn er hins vegar kominn inn á Vestfirði á þessu korti og þokast til suðausturs - eins og fjallað var um í gær.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×