Innlent

2500 til 3000 nýjar leiguíbúðir gætu risið í Reykjavík

Hanna Rún Sverrisdóttir skrifar
Í tillögunni eru nokkur svæði nefnd þar sem íbúðirnar munu rísa. Félagsstofnun stúdenta myndi fá úthlutað lóð fyrir 97 íbúðum við Brautarholt og 350 til 400 stúdentaíbúðir á svæði Háskóla Íslands myndi rísa.
Í tillögunni eru nokkur svæði nefnd þar sem íbúðirnar munu rísa. Félagsstofnun stúdenta myndi fá úthlutað lóð fyrir 97 íbúðum við Brautarholt og 350 til 400 stúdentaíbúðir á svæði Háskóla Íslands myndi rísa. mynd/Vilhelm Gunnarsson
2500 til 3000 nýjar leigu- og búseturéttaríbúðir gætu risið í Reykjavík á næstu þremur til fimm árum. Það yrði í samræmi við tillögu að aðalskipulagi Reykjavíkur og í samvinnu við rótgróin og ný bygginga- og húsnæðissamvinnufélög, ef tillögur stýrihóps borgarráðs um innleiðingu húsnæðisstefnu Reykjavíkurborgar verður samþykkt.

Þetta kemur fram á mbl.is í dag. Þar segir að í tillögunni sé lagt til að Reykjavíkurborg nýti reynslu og þekkingu Félagsbústaða sem kjölfestu í nýjum uppbyggingarverkefnum, á grundvelli nýrrar eigendastefnu Félagsbústaða.

Stúdentar fá úthlutað fjölda lóða

Í tillögunni eru nokkur svæði nefnd þar sem íbúðirnar munu rísa. Félagsstofnun stúdenta myndi fá úthlutað lóð fyrir 97 íbúðum við Brautarholt og 350 til 400 stúdentaíbúðir á svæði Háskóla Íslands myndi rísa. Einnig er talað um eitt hundrað stúdentaíbúðir í Skerjafirði á landi borgarinnar. Ennfremur er gert ráð fyrir að 300 stúdentaíbúðir verði byggðar á svæði HR í Vatnsmýrinni.

Lagt er til að Byggingarfélag námsmanna fái vilyrði um byggingu allt að 50 stúdentaíbúðir á svæðiKennaraháskóla Íslands við Bólstaðarhlíð.

Jafnframt er gert ráð fyrir að samtök aldraðra fái úthlutað lóð í Mjódd og Bólstaðahlíð. Ennfremur er gert ráð fyrir að Hrafnista reisi hjúkrunarheimili við Sléttuveg. Gerð er tillaga um að Grund fái úthlutað lóð vegna byggingar um 70 nýrra búseturéttaríbúða fyrir eldri borgara í Mörkinni.

Unnar á grundvelli pólitískrar sáttar í borgarstjórn – Sjálfstæðismenn gagnrýna þó

Þessar tillögur eru unnar á grundvelli pólitískra sáttar sem náðist í borgarstjórið árið 2011.Í kjölfarið var farið að skoða hvernig útfæra mætti aðgerðir til að fylgja stefnunni og nú liggur fyrir tillaga starfshóps til borgarráðs.

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í starfshópnum eru ekki sáttir við tillögurnar. Borgarfulltrúinn Áslaug Friðriksdóttir, segir að tillagan snerti mikilvæga þætti sem hafi áhrif á hvernig verðmætum borgarinnar sé útdeilt. Tillagan sé ekki nægilega skýr hvað varðar gegnsæi og jafnræði. Hún gagnrýnir einnig að stéttarfélögunum sé boðið að skipa fulltrúa í starfshóp sem vinni að stofnun nýrra húsnæðissamvinnufélaga, en ekki sé gert ráð fyrir að fulltrúar einkamarkaðarins komi að vinnunni.

Fundað verður um málið síðar í vikunni og þá mun málið og afstaða borgarfulltrúa til málsins skýrast.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×