Innlent

Segja ríkisstjórnina lækka skatta með annarri hendinni en hækka með hinni

Höskuldur Kári Schram skrifar
Stjórnarandstaðan gagnrýndi á Alþingi í morgun þá ákvörðun ríkisstjórnarinnar að lækka vaxtabætur. Árni Páll Árnason formaður Samfylkingarinnar sagði þetta jafngilda tugþúsunda skattahækkun á millitekjufólk.

Þetta kom fram í atkvæðagreiðslu um tekjuaðgerðir fjárlagafrumvarpsins. Árni Páll Árnason formaður Samfylkingarinnar sagði að með lækkun vaxtabóta væri ríkisstjórnin að hækka skatta á millitekjufólk.

„20 milljóna íbúðalán er skattahækkun á millitekjufjölskyldur um tuttugu þúsund krónur á mánuði. það er nú öll varðstaða þessarar ríkisstjórnar um millistéttina,“ sagði Árni Páll.

Steingrímur J. Sigfússon þingmaður Vinstri grænna og fyrrverandi fjármálaráðherra  tók í sama streng.

„Hér erum við komin langt til baka hvað varðar stuðning við tekjulágar fjölskyldur með þungar greiðslubyrði af íbúðalánum,“ sagði Steingrímur.

Guðmundur Steingrímsson formaður Bjartrar framtíðar sagði að ríkisstjórnin væri í raun taka til baka fjármuni frá almenningi.

„Hér er stjórnarmeirihlutinn í raun og veru að taka til baka það sem hann er nýbúinn að gefa til millitekjufólks í landinu. Svona er þetta nú stundum. Mjög oft, sýnist mér, er farið í ívilnandi aðgerðir með pompi og prakt og með hinni höndinni er síðan farið í íþyngjandi aðgerðir til að taka ágóðann allan til baka,“ sagði Guðmundur.

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra sakaði stjórnarandstöðuna um villandi málflutning. Bjarni sagði að ríkisstjórnin hefði gripið til margvíslegra aðgerða til að hjálpa heimilum í landinu og benti meðal annars á skuldaaðgerðir ríkisstjórnarinnar, lækkun á millitekjuskatti og lækkun á virðisaukaskatti á taubleyjum.

„Þegar þetta er allt saman virt heildstætt þá er það engum vafa undirorpið að ríkisstjórnin er að stíga stór skref til þess að létta undir með heimilunum í landinu,“ sagði Bjarni




Fleiri fréttir

Sjá meira


×