Innlent

Metfjöldi ferðmanna til Íslands yfir jól

Gissur Sigurðsson skrifar
Aldrei hafa fleiri ferðamenn sótt Ísland heim yfir jólahátíðirnar.
Aldrei hafa fleiri ferðamenn sótt Ísland heim yfir jólahátíðirnar.
Útlit er fyrir að um það bil tvö þúsund erlendir ferðamenn heimsæki landið um sjálf jólin, sem er meiri fjöldi en nokkur sinni, og fullbókað er á öllum hótelum á höfuðborgarsvæðinu um áramótin, eins og undanfarin ár.

Þessum jólaheimsóknum hefur farið jafnt og þétt fjölgandi undanfarin ár, en fyrir aðeins áratug voru aðeins eitt eða tvö hótel opin yfir jólahátíðina. Gunnar Valur Sveinsson, verkefnisstjóri hjá Samtökum ferðaþjónustunnar telur að þarna kunni að vera að finna ný tækifæri í ferðaþjónustunni:

„Við höfum ekki gert neina greiningu á því hvað þau nákvæmlega eru að gera en jólahaldið á Íslandi hefur vakið mikla athygli erlendis. Engin þjóð sem státar af jafn mörgum jólasveinum og við. Svo hafa jólamarkaðir verið að vekja athygli, Reykjavíkurborg og höfuðborgarsvæðið hafa verið að markaðssetja jólavikurnar á erlendum vettvangi. Veturinn er náttúrlega líka orðinn vinsæll meðal erlendra ferðamanna. Einn þáttur er kannski líka að fólk er að fara víða um heim og safna jólum. Ef við höldum vel á spöðunum þá getum við látið jólahátíðina vaxa hér hvað varðar erlenda ferðamenn,“ segir Gunnar Valur.

Samkvæmt lauslegri athugun fréttastofu munu margfalt fleiri útlendingar heimsækja landið  um jól og áramót,  heldur en Íslendingar,  sem ætla að verja jólunum erlendis. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×