Innlent

Stokkað upp í ríkisstjórninni fljótlega

Heimir Már Pétursson skrifar
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra segir að ekki verði stokkað upp í ríkisstjórninni um áramótin en unnið sé að samhæfingu ráðuneyta áður en ráðherrum verði fjölgað á næstunni.

Fyrstu fjárlög ríkisstjórnar Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar liggja nú fyrir í sinni loka mynd og segist forsætisráðherra ánægður með frumvarpið og þær breytingar sem gerðar voru á  því í meðförum þingsins, með samkomulagi við stjórnarandstöðuna.

Þú varst mjög harður á köflum í stjórnarandstöðu og óvæginn myndu margir segja. En svo finnst mörgum að þegar þú ert kominn hinum meginn við línuna þá kvartir þú undan stjórnarandstöðunni og talir um að menn ætli að fara að ljúga?

„Fyrst vil ég geta þess að ég talaði ekki um að ljúga. Ég talaði um að menn myndu segja ósatt um tiltekna hluti og ég tel að það hafi síðan komið á daginn. Merkingin er sú sama en það er önnur áferð á því,“ segir Sigmundur Davíð. En hefur hann engan skilning á því að stjórnarandstaðan sæki að stjórnarliðinu?

„Jú, jú auðvitað gerir hún það,“ segir hann.

Í Pólitíkinni ræðir forsætisráðherra um framtíðarsýn hans á heilbrigðismálin,  Ísland utan Evópusambandsins og mögulega þjóðaratkvæðagreiðslu í þeim efnum og hvernig krónan geti flotið á ný þegar höftum verði aflétt. En í upphafi þessarar ríkisstjórnar var líka talað um að ráðherrum yrði fjölgað í kring um áramótin.

„Nei, ætli það verði nú á gamlársdag úr þessu. Það er enn þá í gangi heilmikil vinna við að meta hvernig stjórnkerfið í heild virkar og hvernig best er að skipta verkum á milli ráðuneyta,“ segir forsætisráðherra. Þar sé verið að skoða samhæfingu ráðuneytanna sem skorti oft á.

„Einhvern tíma svaraði ég kæruleysislega þegar ég var spurður að þessu: Það kemur að því fljótlega og það gildir enn.  En fljótlega er teygjanlegt hugtak,“ segir Sigmundur Davíð með stríðnissvip og segir marga álitlega kosti í þeim efnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×