Innlent

Óljóst um framkvæmdir Dýrafjarðarganga

Hanna Rún Sverrisdóttir skrifar
mynd/Róbert Reynisson
Dýrafjarðargöng yrðu mikilvæg samgöngubót. Þetta kom fram í svari Hönnu Birnu Kristjánsdóttur innanríkisráðherra við fyrirspurn Lilju Rafneyjar Magnúsdóttur alþingismanns um göngin og samgönguáætlun. Þetta kemur fram á vef Bæjarins besta á Ísafirði.

Innanríkisráðherra var einnig spurð að því hvort enn stæðist að framkvæmdir við göngin hæfust árið 2016 að loknum framkvæmdum við Norðfjarðargöng.

Það er fyrirhugsað í samgönguáætlun og þar er fyrirhugað að framkvæmdum við göngin ljúki árið 2018.

„Miðað við áætlanir mun framkvæmdum við Norðfjarðargöng ljúka árið 2017. Eins og fram kemur í nefndaráliti meiri hluta umhverfis- og samgöngunefndar við afgreiðslu 12 ára samgönguáætlunar í júní 2012 var lagt til að framkvæmdum við Dýrafjarðargöng yrði flýtt þannig að þau færðust yfir á framkvæmdatímabilið 2015–2018 og verði þá lokið. Þetta var ein framkvæmd af mörgum sem ætlunin var að flýta með þeirri ákvörðun fyrri ríkisstjórnar að beina viðbótarfé til samgöngumála á því árabili sem samgönguáætlun tekur til,“ segir í svari ráðherra.

Þá segir að fjárþörf verkefna á næstu samgönguáætlun komi í ljós þegar vinnu við þær lýkur, en það verði á næstu vikum. Engu er svarað um hvort Dýrafjarðargöng komi til framkvæmda, hvort heldur er á árinu 2016 eða þegar að lokinni vinnu við Norðfjarðargöng.

„Ég hef miklar áhyggjur af því að í endurskoðaðri samgönguáætlun sem nú er verið að vinna að verði göngunum ýtt fram í tímann. Ég vona að svo verði ekki, en ég hef það á tilfinningunni, miðað við þessi svör,“ segir Lilja Rafney í samtali við Bæjarins besta.

„Það er auðvitað alltaf togstreita um jarðgöng. Ég verð bara eins og allir aðrir að bíða og sjá hvort menn fara að raða upp á nýtt og seinka Dýrafjarðargöngum enn eina ferðina. Þetta hlýtur að skýrast fljótlega,“ sagði Lilja Rafney.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×