Innlent

Saltgerðarmennirnir komnir með svar Danadrottningar

Kristján Már Unnarsson skrifar
Ungu athafnamennirnir tveir, sem hófu saltvinnslu á Reykhólum í haust, og töldu sig af þeim sökum eiga rétt á fjárstyrk frá dönsku krúninni á grundvelli 220 ára gamals loforðs Danakonungs, eru nú búnir að fá svar frá Margréti Danadrottningu.

Þegar við heimsóttum Reykhóla í vor voru félagarnir tveir, þeir Sören Rosenkilde og Garðar Stefánsson, með sæg af iðnaðarmönnum að leggja síðustu hönd á uppsetningu verksmiðjunnar. Þegar við svo mættum aftur á Reykhóla nú í desember var framleiðslan komin af stað, fjórir starfsmenn komnir í vinnu og flögusaltið farið að flæða í neytendapakkningar undir nafninu Norður. Saltið er komið í verslanir innanlands en aðalverkefnið er að koma því á erlendan markað.

Það er ekki síst til að vekja áhuga Dana á saltinu sem þeir félagar ákváðu að kafa ofan í söguna, enda Sören á heimavelli. Á danska ríkisskjalasafninu grófu þeir upp gamla tilskipun frá árinu 1787 þar sem danska krúnan heitir þeim fjárstyrk sem kemur upp saltvinnslu á Reykhólum.

Þeir félagar gerðust því svo djarfir og rituðu bréf til Danadrottningar í haust þar sem þeir röktu söguna til Friðriks fimmta Danakonungs og minntu á loforðið gamla um styrkinn. Bréfið var svo afhent Danadrottningu í heimsókn hennar til Íslands í síðasta mánuði ásamt pakka af flögusalti því til sönnunar að framleiðslan væri hafin.

Og nú eru félagarnir búnir að fá svar frá dönsku hirðinni í Amalienborg. Ritari drottningar ber þar kveðjur frá Hennar hátign, drottningunni, sem þakkar kærlega fyrir flögusaltið og söguna áhugaverðu. Í viðtali í fréttum Stöðvar 2 í kvöld mátti sjá svarbréfið og viðbrögð Garðars við svarinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×