Innlent

Opinberir starfsmenn hafna ASÍ-samningi sem fyrirmynd

Jóhanna Margrét Einarsdóttir skrifar
Mynd/Stefán
Kennarar telja að kjarasamningar sem gerðir voru á almenna markaðnum geti ekki orðið fyrirmynd að samningi fyrir þá. „Það þarf að hækka laun kennara umtalsvert,“ segir Björg Bjarnadóttir, varaformaður Kennarasambands Íslands.

„Við munum ekki taka þessa samninga hráa upp. Ég hefði viljað sjá meiri jöfnuð í þeim,“ segir Árni St. Jónsson, formaður Stéttarfélags í almannaþjónustu, SFR.

Deildar meiningar eru um nýja kjarasamninga Samtaka atvinnulífsins og verkalýðsfélaganna. Mánaðarlaun þess sem er með 246 þúsund krónur á mánuði hækka um 8 þúsund og skattar eru óbreyttir. Mánaðarlaun þess sem er með milljón á mánuði hækka um 28 þúsund og breytingar á tekjuskattskerfinu skila honum tæpum 3.500 krónum á mánuði.

„Ég er svo sorgmæddur og reiður fyrir hönd íslensks verkafólks að það nær engu tali. Mér sýnist að íslensk verkalýðshreyfing sé endanlega að deyja drottni sínum vegna kjarkleysis og aumingjadóms,“ segir Aðalsteinn Baldursson, formaður verkalýðsfélagsins Framsýnar á Húsavík.

Formenn Framsýnar, Drífanda í Vestmannaeyjum, Bárunnar á Selfossi og Verkalýðsfélags Grindavíkur neituðu að skrifa undir kjarasamningana.

Arnar Hjaltalín, formaður Drífanda í Vestmannaeyjum, segir að launahækkanir samkvæmt samningnum skiptist óréttlátt niður. Þeir sem hafa lægst laun fái fæstar krónur en þeir sem hafa mest fyrir fái mestu hækkanirnar.

Aðalsteinn segir ASÍ og Samtök atvinnulífsins vera búin að skuldbinda alla þá sérkjarasamninga sem aðildarfélög ASÍ eigi eftir að gera til að hlíta sömu launahækkunum sem samið sé um núna. Þetta þýði að allir stóriðjusamningarnir og fiskmjölssamningar sem á eftir að gera séu bundnir af þessum skammarlega samningi.

Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, vonast til að verðbólgan éti ekki upp launahækkanir sem fylgja nýjum kjarasamningi. „Við þurfum að stefna að því að verðbólgan verði í samræmi við verðbólgu­markmið Seðlabanka Íslands, eða 2,5 prósent. Ef það tekst höfum við mikla hagsmuni af því.“

Nánar er fjallað um málið í Fréttablaðinu í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×