Innlent

Um 101 þúsund Íslendingar borða skötu í dag

Fanney Birna Jónsdóttir skrifar
Á mörgum heimilum byrja jólin með skötunni á Þorláksmessu.
Á mörgum heimilum byrja jólin með skötunni á Þorláksmessu. Mynd/GVA
42,1% Íslendinga ætla að borða skötu í dag á Þorláksmessu samkvæmt niðurstöðu könnunar sem MMR gerði. Niðurstöðurnar benda til þess að yfir 101 þúsund Íslendingar 18 ára og eldri ætli að borða skötu í dag.

Karlar voru líklegri til að segjast ætla að borða skötu á Þorláksmessu en konur. Af þeim sem tóku afstöðu sögðust 45,4% karla ætla að borða skötu á Þorláksmessu, borið saman við 38,7% kvenna.

Yngra fólk var ólíklegra til að segjast ætla að borða skötu en eldra fólk. Af þeim sem tóku afstöðu og tilheyrðu yngsta aldurshópnum (18-29 ára) sögðust 32,05% ætla að borða skötu á Þorláksmessu, borið saman við 53,2% í aldurshópnum 50-67 ára.

Fólk á landsbyggðinni var líklegra til að segjast ætla að borða skötu en fólk á höfuðborgarsvæðinu. Af þeim sem tóku afstöðu og voru búsett á landsbyggðinni sögðust 50,7% ætla að borða skötu á Þorláksmessu, borið saman við 36,7% íbúa á höfuðborgarsvæðinu.

Píratar voru ólíklegri en stuðningsfólk annarra stjórnmálaflokka til að segjast ætla að borða skötu á Þorláksmessu. Af þeim sem tóku afstöðu og kváðust styðja Pírata sögðust 24,9% ætla að borða skötu á Þorláksmessu, borið saman við 49,8% þeirra sem kváðust styðja Samfylkinguna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×