Innlent

Múslimar skulu afgreiða áfengi og svín

Jakob Bjarnar skrifar
Marks og Spencer hafa nú alfarið dregið til baka allar yfirlýsingar um að múslimir afgreiði ekki áfengi og svínakjöt.
Marks og Spencer hafa nú alfarið dregið til baka allar yfirlýsingar um að múslimir afgreiði ekki áfengi og svínakjöt.
Marks og Spencer á Bretlandi hafa nú kúvent í afstöðu sinni en verslunarmiðstöðin boðaði á dögunum að múslimar í röðum afgreiðslufólks yrði ekki gert að afgreiða viðskiptavini um áfengi eða svínakjöt. The Telegraph greinir frá þessu.

Fréttin vakti mikla athygli og viðbrögðin létu ekki á sér standa. Þúsundir viðskiptavina hótuðu að sniðganga verslunina ef hún héldi þessu til streitu. Stjórnendur Marks og Spencer voru þá fljótir að venda sínu kvæði í kross og tilkynntu í dag að horfið yrði frá þessu fyrirkomulagi. Hugmyndin var sem sagt að afgreiðslufólk gæti á forsendum trúar sinnar neitað að afgreiða þennan varning, svínakjöt og áfengi.

Marks og Spencer hafa dregið alfarið til baka þær staðhæfingar að múslimar meðal afgreiðslufólks muni ekki handleika téðan varning. Og ef svo vill til þá fá slíkir annað hlutverk svo sem að afgreiða föt eða í bakaríi fyrirtækisins. Fyrirtækið hefur beðist velvirðingar á þessum mistökum og að alfarið hafi verið fallið frá slíkri stefnu. Reiðir viðskiptavinir höfðu þá stofnað síðu á Facebook þar sem því var hótað að fyrirtækið yrði sniðgengið. Þar héldu menn því fram að þetta væri til þess fallið að ala á aðskilnaði mismunandi trúarbragðahópa og aðrir líktu þessari ákvörðun við að strangtrúaðir gætu þá á sömu forsendum neitað að afgreiða samkynhneigða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×