Innlent

Snjóflóðahætta og áfram búist við stormi

Hrund Þórsdóttir skrifar
Spár um vonskuveður þessa jólahátíð gengu eftir og hefur vetur konungur minnt hraustlega á sig. Hátt í 200 björgunarsveitamenn voru kallaðir út í gær, á aðfangadag jóla, til að sinna verkefnum víða um land.

Tugir bíla lentu í vandræðum á Mosfellsheiðinni seinni partinn í gær en enn verra var ástandið á Vesturlandsvegi þar sem 35 manns unnu að því að aðstoða fólk í um 50 bílum. Í flestum þeirra voru Íslendingar á leið heim eftir jólaboð.

Samkvæmt upplýsingum frá Landsbjörgu var rólegra í dag en þó þurftu félagar í björgunarsveitum á Seyðisfirði og á Vestfjörðum að koma sjúklingum yfir ófærar heiðar í sjúkraflug. Þá var eitthvað um fasta bíla sem þurfti að aðstoða. Nú sitja nokkrir bílar fastir rétt fyrir ofan Litlu kaffistofuna og varar lögreglan á Selfossi við ferðum yfir Hellisheiðina.

Búist var við að hvassviðrið sem gengið hefur yfir landið næði hámarki sínu seinni partinn í dag, en þó er áfram varað við stormi eða roki víða um land, ekki síst norðvestan til. Þá hefur Veðurstofa Íslands lýst yfir óvissustigi vegna hugsanlegrar snjóflóðahættu á norðanverðum Vestfjörðum. Reitur 9 á Ísafirði hefur verið rýmdur en þar er aðeins atvinnuhúsnæði. Ekki er talin hætta í byggð sem stendur en grannt verður fylgst með þróun mála.

Landsmenn eru hvattir til að vera ekki á ferð að óþörfu og fylgjast vel með upplýsingum um færð og veður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×