Innlent

Þrastarskógur eða Svartiskógur?

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar
Verkalýðsleiðtogi á Suðurlandi segir svarta atvinnustarfsemi í ferðaþjónustu vera sífellt að aukast og við því þurfi að bregðast. Á Suðurlandi eru stærstu sumarbústaðabyggðir landsins og þar er líka rekin öflug ferðaþjónusta. Gárungar hafa talað um Þrastarskóg í Grímsnesi sem Svartaskóg því þar sé mikið af iðnaðarmönnum að vinna svart við endurnýjun og byggingu nýrra sumarbústaða.

Ekki skal fullyrt hvort þetta er rétt eða rangt.

Halldóra Sigríður Sveinsdóttir, formaður Bárunnar Stéttarfélags segir hins vegar að svört atvinnustarfsemi sé alltaf að aukast, ekki síst í ferðaþjónustu á Suðurlandi. 

„Hér eru mikill uppgangur í ferðaþjónustu og töluvert um svarta atvinnustarfsemi. Við höfum verið í átaki, stéttarfélögin, að fara á vinnustaði og fara yfir þessi mál, og okkur sýnist að það er heldur að bæta í svarta atvinnustarfsemi í ferðaþjónustu,“ segir Halldóra.

„Við höfum verið að fara í eftirlit og menn hafa ekki verið skráðir sem launþegar, og við skráum niuður þessar kennitölur sem fara til ríkisskattstjóra. Við fáum ekki að sjá hver niðurstaðan er, en verðum vör við töluvert mikið af svartri atvinnustarfsemi,“ bætir hún við.

Hún telur svarta atvinnustarfsemi um 14-15 prósent af allri starfsemi á Suðurlandi. „Það þarf virkilega að gera meira átak í þessu og neytendur þurfa að verða meðvitaðri á Íslandi um það við hvern þeir eru að skipta,“ segir Halldóra að lokum.
Fleiri fréttir

Sjá meira


×