Innlent

Óskýr og ótrygg fjármögnun skuldaaðgerða

Höskuldur Kári Schram skrifar
Guðmundur Steingrímsson formaður Bjartrar framtíðar og Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra.
Guðmundur Steingrímsson formaður Bjartrar framtíðar og Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra.
Guðmundur Steingrímsson formaður Bjartrar framtíðar segir að fjármögnun skuldaaðgerða ríkisstjórnarinnar sé bæði óskýr og ótrygg.

Ríkisstjórnin ætlar fjármagna skuldaaðgerðirnar meðal annars með sérstökum skatti á fjármálafyrirtæki og þrotabú gömlu bankanna. Skatturinn á í því samhengi að skila 20 milljörðum á ári næstu fjögur árin.

Guðmundur Steingrímsson, formaður Bjartrar framtíðar, tók málið upp á Alþingi og vísaði til þess að í greinargerð með fjárlagafrumvarpinu kemur fram að gert sé ráð fyrir því að slitameðferð gömlu bankanna verði að fullu lokið árið 2015 eða eftir tvö ár. Guðmundur spurði fjármálaráðherra hvernig ríkisstjórnin hyggst fjármagna skuldaaðgerðirnar þegar þessi skattstofn verður ekki lengur fyrir hendi.

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra sagði að væri óvissu háð hversu lengi þessi skattstofn muni lifa.

„Í því frumvarpi sem kynnt var hér í haust þá er þess getið í greinargerð að í því máli sé gengið út frá því að skattstofninn sé a.m.k. til tveggja ára. En það er hins vegar ómögulegt að festa hendur á einhverri ákveðinni tímalengd í þessu efni. Það sem ég horfi hins vegar til er það að eins og sakir standa þá er augljóst að það mun þurfa töluvert miklar afskriftir af íslenskum eignum innan þrotabúanna til þess að við getum komist í afnám haftanna. Þess vegna leyfi ég mér að segja að jafnvel þótt þessi skattstofn myndi á komandi árum hverfa, þ.e. það myndi annað hvort ljúka uppgjöri fjármálafyrirtækja í slitum með nauðasamningi eða með gjaldþroti eða öðrum hætti þá mun verða til með einhverjum öðrum hætti skattstofn fyrir ríkið sem a.m.k. mun jafngilda því sem bankaskatturinn stendur undir,“ sagði Bjarni.

Guðmundur sagði ljóst að fjármögnunin væri ótrygg miðað við svar ráðherra.

"Þetta svar hljómaði í mínum eyrum dálítið eins og séríslenska viðkvæðið "þetta reddast". Þetta reddast bara einhvern veginn með geislum eða á internetinu [...] og stærstu tíðindin í þessu svari  hæstvirts fjármálaráðherra er að fjármögnunin á öllum þessum pakka er í meira lagi óskýr og ótrygg,“ sagði Guðmundur.

Bjarni sagði mikilvægt að hafa í huga að bankaskatturinn sé ekki eingöngu lagður á fjármálafyrirtæki í slitum.

„Ég tek eftir því að háttvirtur þingmaður hefur áhyggjur af því að það kynni að fara svo á komandi árum að slitum fjármálafyrirtækja myndi ljúka og þar með myndu þau hverfa sem greiðendur þessa skattstofns. En ég bendi á að við slík slit þá mun fyrst og fremst reyna á útgreiðslu af eignum þrotabúanna og í tengslum við afnám gjaldeyrishaftanna mun líka reyna á leiðir til þess að létta snjóhengjuna vegna aflandskróna. Í því samhengi hafa verið viðraðar ýmsar hugmyndir sem geta á endanum skilað ríkinu skatttekjum eins og t.d. sérstakur útgönguskattur. Þannig að við höfum tímann fyrir framan okkur til þess að taka á þeirri stöðu sem kann að þróast í þessum efnum en eitt er alveg skýrt í mínum huga það er ekki ástæða til að hafa áhyggjur af því að ríkið muni verða af tekjum í þeirri þróun,“ sagði Bjarni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×