Innlent

Rætt við íslensku hetjurnar: "Við vorum bara að reyna að bjarga þessu fólki"

Hrund Þórsdóttir skrifar
Tveir íslenskir félagar sem björguðu rúmenskri fjölskyldu úr brennandi húsi í Árósum í morgun, viðurkenna að hafa verið dauðhræddir þegar þeir óðu inn í eldinn. Þeir hugsuðu samt lítið um það og björguðu út tveimur drengjum og ungri konu með barn. Annar þeirra hefur áður bjargað mannslífum.

Gunnar Þór Nilsen var nýkominn heim eftir að hafa skutlað dóttur sinni í skólann þegar hann sá að kviknað var í nærliggjandi íbúð. Hann hringdi í 112 og vakti félaga sinn. „Ég var vakinn dálítið harkalega. Fyrst hélt ég að það væri kviknað í hjá okkur en það var nú ekki þannig svo við hlupum bara út og aðstoðuðum þau. Það var einn kominn hálfur út um glugga á annarri hæð og svo var þarna stúlka sem hljóp í hringi inni hjá sér. Þetta var mikið kaosástand,“ segir Friðrik Elís Ásmundsson.

Einn íbúinn hafði komið sér út á verönd og sleiktu eldtungurnar hann. Maðurinn sagði fleiri í íbúðinni og fóru þeir Gunnar og Friðrik inn og mættu konu með lítið barn í fanginu. Þeim tókst að hjálpa þeim ásamt tveimur drengjum út og aðstoðuðu svo fólk í nærliggjandi íbúðum. Fólkið hlaut ekki alvarlegan skaða. Íslensku hetjurnar óðu beint inn í eldinn; en þeir félagar viðurkenna að hafa verið hræddir. „Ég var bara titrandi; það var adrenalín og allt í gangi. Við vorum bara að reyna að bjarga þessu fólki og pældum ekkert mikið í hættunni þótt það rigndi einhverju plasti sem var að bráðna yfir okkur og spryngju einhverjar rúður og svona, maður var bara ekkert að pæla í því,“ segir Gunnar.

Hann hefur áður bjargað mannslífum. „Ég hef tvisvar komið að bílslysum, einu sinni dregið mann út úr brennandi bílflaki og í annað sinn, fyrir nokkrum árum síðan, var vörubíll að reyna að taka fram úr og lenti framan á litlum bíl. Það voru tveir bræður í þeim bíl og annar þeirra var mjög illa farinn. Ég náði að hreinsa tennur upp úr hálsinum á honum.“

Segðu mér satt Gunnar, ertu í Súpermanbúning undir fötunum?

„Nei, ég get nú ekki sagt það, ég er meira svona Batman. Nei nei, ég er bara pínu loðinn,“ segir Gunnar að lokum og það er létt yfir honum þrátt fyrir atburði dagsins.

Í meðfylgjandi myndskeiði má sjá viðtal við þá félaga og myndir frá vettvangi í morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×