Innlent

Íslensk stúlka vinnur til tækniverðlauna í Evrópu

Fanney Birna Jónsdóttir skrifar
Ólína, lengst til hægri, er efnilegur forritari.
Ólína, lengst til hægri, er efnilegur forritari.
Ólína Helga Sverrisdóttir, 13 ára stúlka úr Garðabænum, lenti í öðru sæti í valinu á Tæknistelpu ársins í Evrópu 2013 (Digital Girl of the Year Award).

Úrslitin voru tilkynnt í síðustu viku á ráðstefnu Evrópusambandsins um upplýsingatækni sem haldin var í Vilinius í Litháen.

Ólína Helga hóf forritunarferil sinn aðeins 9 ára að aldri þegar móðir hennar  hóf að kenna henni að forrita með aðferðarfræði sem hún hafði sjálf þróað. Þessi tilraunastarfsemi lagði grunninn að stofnun Skema, sem sérhæfir sig í kennslu og ráðgjöf í forritun og tækni í skólastarfi. Ólína Helga hefur frá upphafi starfað sem aðstoðarleiðbeinandi á námskeiðum Skema, bæði við að kenna börnum og kennurum að forrita.

Á síðasta ári sigraði Ólína Helga forritunarkeppni sem haldin var á vegum FBI, bandarísku alríkislögreglunnar, þar sem tilgangurinn var að fá ungt fólk til að forrita sögur um hættur internetsins.

Ólína Helga hyggst halda áfram að feta tæknibrautina og leggja stund á meira forritunarnám samhliða áhugamálum sínum sem eru dans, myndlist og sálfræði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×