Innlent

Líkamsárás vísað frá dómi vegna óskýrleika í kæru

Fanney Birna Jónsdóttir skrifar
Lögreglan bætti úr óskýrleikanum í skýrslutöku en þá var það orðið of seint.
Lögreglan bætti úr óskýrleikanum í skýrslutöku en þá var það orðið of seint.
Maður var í gær sýknaður af Hæstarétti fyrir líkamsárás gegn konu sem sakaði hann um að hafa ruðst heimildarlaust inn í íbúð konunnar, ýtt við henni og rifið utan af henni nærbuxur með þeim afleiðingum að hún hlaut rispu á mjöðm. Þá henti hann farsíma og örbylgju ofni í gólf íbúðarinnar.

Hann var einnig ákærður fyrir líkamsárás gegn öðrum manni sama dag í sama húsi. Var hann ákærður fyrir að hafa veist að manninum þannig að hann féll aftur fyrir sig og skall með höfuðið í ofn og hlaut við það sár á hvirfli.

Í dómi Hæstaréttar er vísað til þess að þótt að konan hafi borið fram kæru á hendur þeim ákærða hjá lögreglu fyrir húsbrot og eignarspjöll hafi ekki komið þar fram við skýrslutöku af konunni hjá lögreglu hvort hún krefðist þess að sakamál yrði höfðað á hendur honum.

Þegar loksins var bætt úr því ellefu mánuðum síðar við aðra skýrslutöku, að fá fullnægjandi kröfu konunnar fyrir því að það væri hennar vilji að sakamál yrði höfðað á hendur manninum, var lögbundninn sex mánaða málshöfðunarfrestur liðinn.

Var því ákærunni vegna eignarspjalla og húsbrots mannsins vísað frá dómi.

Maðurinn var einnig sýknaður vegna beggja líkamsárásanna.

Í árásinni á hendur konunni segir í dómi héraðsdóms, sem Hæstiréttur staðfesti, að áverki hennar sé óverulegur og þess eðlis að ekki sé útilokað að hann hafi myndast fyrir tilstilli hennar sjálfrar. Þá beri verulega á milli framburðar konunnar og ákærða sem voru ein í íbúðinni.

Maðurinn var einnig sýknaður af ákæru vegna síðari líkamsárásinni en í dómnum segir að fyrir liggi að nokkurt jafnræði hafi verið á milli ákærða og brotaþola hvað líkamsburði varðar. Þá hafi komið til ryskinga milli þeirra en þeim beri ekki saman um hvernig það atvikaðist að þeir féllu í gólfið og hver hafi verið þáttur hvors um sig í þeim átökum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×