Innlent

Vænlegast að nota fælingargirðingu í Kolgrafafirði

Samúel Karl Ólason skrifar
Af fjórum kostum telur tengiliðahópur fælingargirðingu vænlegasta.
Af fjórum kostum telur tengiliðahópur fælingargirðingu vænlegasta. Mynd/Vilhelm Gunnarsson
Tengiliðahópur, sem hefur leitað leiða til að sporna gegn síldardauða í Kolgrafafirði á Snæfellsnesi, telur fjórar kosti vænlegasta til verksins. Sagt er frá þessu á vef Skessuhorns.

Kosturinn sem er talinn vænlegastur af þessum fjórum er 1.100 metra löng fælingargirðing, sem er leggur með hvítum veifum sem sveiflast í sjónum. Birtan af þeim á að hrekja síldina á burt. Bjarni Sigurbjörnsson, bóndi á Eiði í Kolgrafafirði, er í tengiliðahópnum og í samtali við Skessuhorn segir hann að þessi kostur byggi á gamalli aðferð sem beitt var við síldveiðar áður fyrr.

Hinir þrír möguleikarnir eru lokun fjarðarins, stækkun opnunar með því að rjúfa landfyllingu að austanverðu með nýrri brú og síðasta er að dæla súrefni í fjörðinn með sérstökum búnaði.

Mögulegt væri að ráðast í uppsetningu girðingarinnar á skömmum tíma og myndi það ekki krefjast umfangsmikils ferils umhverfismats, mikillar verkfræðivinnu eða öryggisþátta. Jafnframt yrði það ódýrasti kosturinn og er hann metinn á bilinu 60-80 milljónir. Hinir kostirnir þrír eru dýrari og myndi t.d. kosta allt að 800 milljónir að opna fjörðinn frekar með byggingu nýrrar brúar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×