Innlent

Fengu áritaða landsliðstreyju að gjöf

Samúel Karl Ólason skrifar
Börnin í Álfaheiði voru ánægð með landsliðstreyjuna þegar þau fengu hana afhenta á samverustund leikskólans.
Börnin í Álfaheiði voru ánægð með landsliðstreyjuna þegar þau fengu hana afhenta á samverustund leikskólans.
Leikskólinn Álfaheiði í Kópavogi hefur verið styrktarforeldri drengs sem heitir Lúkas og býr í SOS Barnaþorpi í Argentínu frá árinu 2002. Börnin á leikskólanum hafa alltaf haldið upp á afmæli Lúkasar og sent honum afmælisgjafir.

Nú í tilefni af 14 ára afmæli hans, ætla börnin að senda Lúkasi íslenska landsliðstreyju sem árituð er af leikmönnum lansdliðs Íslands í knattspyrnu. Fyrst þegar hugmyndin kom upp reyndist landsliðstreyja vera of dýr, en SOS Barnaþorp höfðu samband við KSÍ fyrir hönd leikskólans og þar var vel tekið í hugmyndina. Voru leikmenn landsliðsins fengnir til að árita treyjuna þar sem þeir væru allir á landinu að æfa fyrir leikinn gegn Kýpur á morgun.

Treyjan var afhent börnunum í Álfaheiði í dag í samverustund skólans og vakti það mikla lukku. Síðustu tvær gjafir sem börnin gáfu Lúkasi voru bolur með mynd af Eyjafjallajökli og geisladiskur með Of monsters and men.

Á deildum leikskólans Álfaheiði eru baukar til styrktar Lúkasi og börnin koma með klink að heiman og jafnvel hluta af afmælispeningum sínum til að setja í baukinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×