Innlent

Lögreglukonur reiðar vegna tölfræðisamantektar um jafnréttismál

Fanney Birna Jónsdóttir skrifar
Eyrún Eyþórsdóttir, lögreglufulltrúi hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, vill sjá hag lögreglukvenna bættan.
Eyrún Eyþórsdóttir, lögreglufulltrúi hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, vill sjá hag lögreglukvenna bættan.
Eyrún Eyþórsdóttir, lögreglufulltrúi hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, gerir alvarlegar athugasemdir við samantekt Ríkislögreglustjóra um jafnréttismál innan lögreglunnar. Hún segir tölfræði embættisins setta fram með villandi hætti til að fegra hlut lögreglukvenna, sem sé alls ekki fagur.

„Við lögreglukonur sem höfum verið að tala fyrir bættri stöðu lögreglukvenna erum reiðar. Við teljum að þarna sé verið að varpa fram tölfræði sem lítur vel út en er bara alls ekki rétt tölfræði um hlut kynjanna“ segir Eyrún í samtali við Vísi.

Vísir birti í gær frétt um samantekt Ríkislögreglustjóra um jafnréttismál lögreglu fyrir árið 2012. Samkvæmt samantektinni frá Ríkislögreglustjóra er hlutfall kvenna tæp 16% í stjórnun og stefnumótum (yfirstjórn) embættisins. Hæst er hlutfallið hjá embætti Suðurnesja eða tæpur þriðjungur (29%) og næst hæst hjá embætti ríkislögreglustjóra og lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu eða 25%. Hjá hinum embættunum sem tekin var tölfræði yfir situr engin kona í yfirstjórn embættis.

Eyrún segir sumar þessara talna einfaldlega rangar. Hún vill meina að þegar betur er rýnt í samantektina megi sjá að allar upplýsingar um starfsmenn nái bæði yfir borgaralega starfsmenn og lögreglumenn. Það þýði að ekki sé aðeins verið að skoða hlut lögreglukvenna heldur einnig allra þeirra starfsmanna sem starfa hjá lögregluembættum um land allt, eins og skrifstofufólk og aðra borgaralega starfsmenn sem ekki hafi lögregluvald.

„Sannleikurinn er sá að hjá Ríkislögreglustjóra er engin lögreglukona í yfirstjórn og hjá Lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu er heldur engin lögreglukona í yfirstjórn. Hins vegar er mikið gert úr háu hlutfalli kvenna í lögreglufulltrúastöðum, eins og minni, en slíkir starfsmenn hafa ekkert stjórnunarvald eða mannaforráð. Við fögnum því auðvitað að það séu fleiri konur í stjórnunarstörfum hjá lögreglunni en við viljum sjá lögreglukonur ná frekari frama innan lögreglunnar.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×