Innlent

Þjófar á ferð á Suðurnesjum

Jóhanna Margrét Einarsdóttir skrifar
Lögreglan á Suðurnesjum rannsakar innbrot og þjófnað á handfærarúllum
Lögreglan á Suðurnesjum rannsakar innbrot og þjófnað á handfærarúllum
Brotist var inn í íbúðarhús í Vogum í gær og allmiklum verðmætum stolið.

Þjófarnir spenntu upp útidyrahurð og  komust þannig inn í húsið.  Þar rótuðu þeir  í skúffum og skápum og dreifðu eigum heimilismanna um allt hús.  Það var því allt á tjá og tundri þegar lögreglan kom á staðinn.

Húsráðandi telur að þjófarnir hafi haft á brott með sér 42“ sjónvarp, heimabíókerfi, flakkara, fartölvu og  Cannon myndavél.   Lögregla reynir nú að hafa hendur í hári þjófanna.

Lögreglan á Suðurnesjum rannsakar einnig þjófnaði úr tveimur  bátum sem lágu í smábátahöfninni Grindavík.  Þar höfðu óvandaðir menn á brott með sér handfærarúllur.

Bryggjan er læst með járnhliði en ekki hafði verið hróflað við því.  Lögreglan segir að mögulegt sé að fara fram hjá lokuninni, auk þess sem fjöldi manna sé með lykil að hliðinu. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×