Innlent

Breyting á greiðsluþátttökukerfi vegna lyfjakaupa: Mistök gerð í aðdraganda nýs kerfis

Hrund Þórsdóttir skrifar
Gerð hefur verið breyting á greiðsluþátttökukerfi vegna lyfjakaupa, sem tók gildi í vor. Fólk á nú að öðlast sjálfkrafa rétt til fullrar greiðsluþátttöku sjúkratrygginga í kostnaði við lyfjakaup, þegar hámarkskostnaði vegna þeirra er náð og verður umsókn læknis, sem krafist hefur verið hingað til, óþörf.

Heilbrigðisráðherra segir markmiðið að einfalda kerfið og ná fram hagræðingu.

Nú hefur ýmislegt fleira við þetta kerfi verið gagnrýnt, er verið að skoða einhverjar frekari breytingar á því?

„Já, það stendur yfir heildarendurskoðun á greiðsluþátttöku sjúklinga í íslenskri heilbrigðisþjónustu og þær athugasemdir sem hafa komið fram við greiðsluþátttökukerfið fara þangað inn,“ segir Kristján.

Voru mistök í vor að setja þetta kerfi á í núverandi mynd?

„Nei, ég er ekki endilega sammála því. Ég held að mistökin hafi kannski verið þau að kerfið hafi ekki verið nægilega vel kynnt og skýrt út fyrir fólki hvað þarna var á ferðinni. Stærsti ágallinn á breytingunni var held ég að aðdragandinn var ekki nægilega vel undirbúinn.“

Lyfsalar hafa kvartað undan því að með nýja kerfinu geti þeir ekki lengur veitt afslætti af lyfjum, þar sem ríkið hirði mismuninn.  Vegna þessa hefur hefur Haukur Ingason, lyfsali í Garðsapóteki, sent kvörtun til Umboðsmanns Alþingis.

Kristján segir afslætti ennþá mögulega.

Er þá að þínu mati ekki rétt hjá lyfsölunum að þeir geti ekki veitt sínum viðskiptavinum afslætti?

„Að hluta til hafa þeir rétt fyrir sér í þeirri gagnrýni. Hvað varðar þessi greiðsluskyldu lyf, þá eru takmarkanir til að veita afslætti þar fyrir hendi. Hins vegar er full heimild og frelsi til samkeppni á öllum öðrum lyfjum og vörum sem lyfsalarnir eru að selja,“ segir Kristján að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×