Innlent

"Hvort viljum við lækka einn skatt smá eða bjarga Landspítalanum?“

Nanna Elísa Jakobsdóttir skrifar
Guðmundur Steingrímsson, formaður Bjartrar framtíðar.
Guðmundur Steingrímsson, formaður Bjartrar framtíðar. Mynd/Valli
Guðmundur Steingrímsson, formaður Bjartrar framtíðar, bað ríkisstjórnina um skýra stefnu í ræðu sinni á Alþingi fyrir stuttu. „Maður getur látið ótrúlegustu hluti dynja á sér ef maður veit hvert leiðin liggur og maður hefur trú á ferðinni og áfangastaðnum,“ sagði Guðmundur og vísaði í Reisubók séra Ólafs Egilssonar.

Ólafur var numinn á brott árið 1627 ásamt fjölskyldu sinni, settur í poka og siglt til Alsír. Í bókinni lýsir Ólafur för sinni heim til Íslands á ný. „Það sem sló mig við frásögn Ólafs var þetta:  Hann vissi hvert förinni var heitið. Sérhvert skref var skref í rétta átt. Hann gekk því yfir lönd Evrópu þar til hann kom aftur heim til Eyja.“ Að vita hvert förinni er heitið er mikilvægt í kjölfar áfalla að mati Guðmundar og sagði hann að það sem gilti um Ólaf gilda nú um heila þjóð. „Hún þarf að vita hvert förinni er heitið. Ef það er skýrt og ef okkur langar til að ná þeim áfangastað, að þá held ég við, sem búum í þessu landi, vílum ekki fyrir okkur, frekar en Ólafur, að ganga af stað.“

„Fjárlög eru uppfull af stefnu,“ sagði Guðmundur jafnframt. „Í fjárlögum er allt fullt af ákvörðunum sem hafa verið teknar einhvern tímann, en geta verið öðruvísi, ef við viljum.“ Guðmundur sagði að sér þætti sú stefna sem ríkisstjórnin virtist hafa myndað sér í fjárlögunum röng.

Hann gagnrýndi lækkun á tekjuskatti og á virðisaukaskatti á gistiþjónustu. „ Það er lækkun sem skilar meðalmanni einhverjum hundrað köllum á viku. En þarna fara milljarðar úr ríkiskassanum. Það fé er hægt að nota til þess að gefa umtalsvert í varðandi fjárfestingar í atvinnulífinu og til að hefja endurreisn Landsspítalans, og samt afnema stimpilgjöld á skuldbreytingum og lækka tryggingagjald. Ein einföld spurning blasir við, fullkomlega málefnaleg og aðkallandi: Hvort viljum við lækka einn skatt smá eða bjarga Landspítalanum?“

Það veldur Guðmundi áhyggjum að ríkisstjórnin sé, á of mörgum sviðum, að hætta við vel ígrundaðar ákvarðanir sem teknar voru í kjölfar efnahagshrunsins. Hann vísaði í ræðu sinni til þeirrar starfsemi sem fór í gang í kjölfar hrunsins, þau verkefni sem voru sett af stað við að kortleggja tækifæri í hverjum landshluta, skilgreina hvaða aðgerða væri þörf til þess að rétta úr kútnum og þær fjárfestingaráætlanir sem gerðar voru þegar ástæður hrunsins voru skoðaðar.

„Úr þessu spratt fjárfestingaáætlun. Byggð á vinnu ótal Íslendinga við að skilgreina hvaða leiðir væru líklegar til þess að skapa okkur meiri tekjur, í gegnum greinar sem geta vaxið og eru til dæmis ekki bundnar kvóta. Tónlist er ekki bundin kvóta.  Svoleiðis atvinnu og svoleiðis tekjur þurfum við, ofan á þær sem við höfum þegar. Til þess að kosta grunnþjónustuna, til þess að borga skuldir, til þess að lækka skatta.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×