Innlent

Varðskipið Þór verður ekki leigt út

Haraldur Guðmundsson skrifar
Varðskipið Þór hefur stóran hluta af árinu legið við bryggju í Reykjavíkurhöfn.
Varðskipið Þór hefur stóran hluta af árinu legið við bryggju í Reykjavíkurhöfn. Fréttablaðið/Daníel.
Landhelgisgæslan ætlar ekki að leigja varðskipið Þór út til verkefna erlendis.

Þetta kemur fram í skriflegu svari frá Georg Lárussyni, forstjóra Landhelgisgæslunnar, við fyrirspurn Fréttablaðsins um rekstur varðskipsins.

Landhelgisgæslan hefur þurft að draga verulega úr siglingum varðskipsins á árinu. Ástæðan er aukinn kostnaður við ­rekstur flugdeildar stofnunarinnar, sem hefur kallað á endurskipu­lagningu á rekstri hennar. Þrátt fyrir það ætlar stofnunin ekki að leigja ­skipið út en hún hefur undan­farin ár leigt eldri varðskipin, Tý og Ægi, til verkefna í útlöndum.

Spurður um ferðir og ástand hinna varðskipanna svarar Georg að búnaður sem tengist annarri aðalvél Ægis sé bilaður og að ­skipið sé í Reykjavík.

„Á meðan er skipið búið annarri aðalvélinni en hún er 4.500 hestöfl, sem er nokkuð samsvarandi því sem gengur og gerist í flestöllum skipum í íslenska flotanum,“ segir Georg.

Varðskipið Týr er að sögn Georgs staðsett á Akureyri ásamt hluta áhafnar, en hinn hlutinn er staðsettur í Reykjavík og er flogið með þyrlum eða flugvél Landhelgisgæslunnar þegar nauðsyn krefur.

„Það sparar bæði tíma og eykur öryggi að hafa skipið á norðaustur­horninu á móti hinum ­skipunum sem eru til taks á suðvestur­horninu,“ segir Georg.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×