Innlent

Miðstjórn ASÍ ósátt við fjárlagafrumvarpið

Mynd/Daníel
Miðstjórn ASÍ lýsir yfir vonbrigðum með áherslur nýrrar ríkisstjórnar eins og þær birtast í fjárlagafrumvarpinu. Þetta kemur fram í tilkynningu frá miðstjórn ASÍ.

Miðstjórnin segir að frumvarpið beri þess merki að fyrsta verk nýrrar ríkisstjórnar hafi verið að rýra verulega tekjustofna ríkisins. Veiðileyfagjaldi útgerðarinnar hafi verið lækkað um milljarða á sumarþingi og virðisaukaskattur á ferðaþjónustu lækkaður.

„Samtals er hér um að ræða milljarða króna skattalækkun fyrir velstæð fyrirtæki og einstaklinga. Til að mæta þessu tekjutapi er skorið niður í okkar mikilvægustu velferðarstofnunum á borð við spítala, heilsugæslu, framhaldsskóla og símenntamiðstöðvar og í stuðningi við þá sem hafa verið án atvinnu lengi,“ segir í ályktun miðstjórnar ASÍ.

„Til þess að sátt verði um stefnuna í ríkisfjármálum verður ríkisstjórnin að sýna það í verki að byrðum aðhaldsins sé réttlátlega skipt. Það er ekki gert í þessu frumvarpi til fjárlaga. Miðstjórn ASÍ kallar því eftir stefnubreytingu og leggur áherslu á mikilvægi þess að haldið verði áfram því mikilvæga verkefni að endurreisa velferðar- og menntakerfið.

Það eru mikil vonbrigði að ný ríkisstjórn virðist ekkert ætla að gera til þess að auka fjárfestingar og fjölga þannig störfum. Fjárfestingar ríkisins eru í sögulegu lágmarki og því kemur það verulega á óvart að falla eigi frá áformum um fjárfestingar sem ákveðnar höfðu verið.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×