Innlent

Óperusöngvari tók á móti barni á Grensásvegi

María Lilja Þrastardóttir skrifar
Hjónin Hrönn Helgadóttir, organisti og Davíð Ólafsson, óperusöngvari voru á leið upp á fæðingadeild laust fyrir klukkan 3 í nótt frá heimili sínu í Mosfellsbænum á heimilsibílnum, litlum Volkswagen Touran.

Hrönn fékk fyrstu verki klukkan hálf tvö svo þau ákáðu að leggja af stað á fæðingadeildina. 

Þau voru komin að Bauhaus þegar að Hrönn svo missir vatnið.

„Hún ákvað að gefa í, svo ég varð að gefa í. Ég bað svo bara til guðs að lögreglan myndi ekki taka mig,“ segir Davíð.

Fyrir eiga hjónin saman fjögurra ára tvíbura, og Hrönn tvö eldri úr fyrra sambandi.

Þegar að ljóst var í hvað stefndi ákvað Davíð að aka inn Grensásveginn, leggja uppi á stétt og taka á móti stúlkunni fyrir utan raftækjaverslunina Pfaff.

Stúlkunni lá ósköpin öll á að komast í heiminn og segir Davíð að ekki hafi nema mínúta liðið frá því að hann pantaði sjúkrabíl á Grensásveginn og þangað til að barnið, sem á læknaskýrslum er nú kölluð Pfaffstúlkan, var komið í fang móðurinnar.

Það er nokkuð ljóst að foreldrarnir tónelsku munu huga vandlega að tónlistauppeldi þeirrar stuttu og ekki var annað að sjá nema að hún kynni vel að meta söng föður síns.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×