Innlent

Til skoðunar að fá lífeyrissjóði til að fjárfesta í nýsköpun

Kjartan Hreinn Njálsson skrifar
Til skoðunar er að rýmka heimildir lífeyrissjóðanna til að auka þátttöku þeirra í sprota- og nýsköpunargeiranum hér á landi. Iðnaðar- og viðskiptaráðherra segir það vera sárgrætilegt að sjá ung íslensk fyrirtæki stofna móðurfélög erlendis.

Styrktar- og fjármögnunarsjóðir sem íslensk sprota- og nýsköpunarfyrirtæki hafa leitað í um árabil eru nú félitlir svo um munar. Þetta á bæði við um Nýsköpunarsjóð og Frumtak, en sá síðarnefndi er nú tómur.

Bent hefur verið á að mögulegt sé að liðka um fyrir starfsemi lífeyrissjóðanna þegar fjárfestingar í sprotafyrirtækjum eru annars vegar. Iðnaðar- og viðskiptaráðherra segir þessa útfærslu vel eiga við.

„Ég tel að slík athugun sé þegar hafin,“ segir Ragnheiður Elín Árnadóttir. „Það er, að skoða það hvort að það megi, með einhverjum hætti, skoða það að rýmka heimildir lífeyrissjóðanna til að auka þeirra fjölbreyttni í atvinnulífinu. Stóra verkefnið er að auka fjárfestingu í íslensku atvinnulífi og ég tel að lífeyrissjóðirnir með sinn sterka fjárhag væru góðir aðilar til að koma að því verkefni.“

Sem fyrr eru gjaldeyrishöftin bleiki fíllinn í herberginu þegar sprotafyrirtæki eru annars vegar. Hlutirnir þurfa að gerast hratt í þessum geira og haftaumhverfi, með tilheyrandi flækjustigi, þykir seint aðlaðandi fyrir erlenda fjárfestingu. Mörg dæmi eru um að fjársterkir aðilar hafi hætt við að fjárfesta í ungum íslenskum fyrirtækjum. Skilaboðin eru því skýr, stofnið fyrirtæki erlendis.

„Það er sárgrætilegt að horfa upp á það. Það er gott að fyrirtæki leiti út fyrir landsteinanna og það er nauðsynlegt upp að ákveðnu marki. Þetta er viðfangsefni sem að við tökum mjög alvarlega og erum í góðu samstarfi og samtali við þá aðila sem kom að þessum geira.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×