Innlent

Öllu starfsfólki í rækjuvinnslu Kampa sagt upp

Jón Júlíus Karlsson skrifar
Mynd/Pjetur
Öllu starfsfólki rækjuvinnslu Kampa efh. á Ísafirði hefur verið sagt upp störfum. Alls starfa 32 starfsmenn hjá fyrirtækinu við rækjuvinnslu en hafa nú fengið uppsagnarbréf vegna óvissu í hráefnismálum. BB.is greinir frá þessu.

Brynjar Ingason, rekstrarstjóri hjá Kampa, segir að fyrirtækið sé að sigla inn í erfiðan tíma í hráefnisöflun. Einnig hjálpi ekki til að í nýju frumvarpi sjávarútvegsráðherra verður kvóta úthlutað að 70% í hlutfalli við fyrri kvótaeign en aðeins 30% í hlutfalli við veiðireynslu á þeim þremur árum sem veiðar á úthafsrækju hafa verið frjálsar. Það komi sér illa fyrir fyrirtækið.

Reynt verður að halda áfram rekstri í rækjuvinnslu fyrirtækisins ef hráefni verður fyrir hendi. Aðeins starfsmenn í rækjuvinnslu fyrirtækisins var sagt upp og ekki liggur fyrir hvort að starfsmönnum í fiskvinnslu verður einnig sagt upp.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×