Innlent

Njálgssmitum fjölgar

Hödd Vilhjálmsdóttir skrifar
Tilfellum af njálg hefur fjölgað verulega, hér á landi undanfarin ár, en handþvottur og almennt hreinlæti eru besta leiðin til að sporna við smiti.

Njálgur er hvítur og lítill þráðormur sem sest að í endaþarmi fólks og veldur í mörgum tilfellum miklum kláða. Mörg börn smitast á ári hverju en ormurinn er þó ekki einskorðaður við þau og getur lagst á alla. Ása St. Atladóttir, hjúkrunarfræðingur og verkefnisstjóri sýkingavarna hjá Landlæknisembættinu, segir að algengast sé að smit komi upp í barnafjölskyldum og hjá þeim sem vinna með börnum.

Mikil aukning hefur orðið á tilfellum af njálg undanfarin ár en 2007 og 2008 voru rúmlega 200 tilfelli skráð hjá Landlæknisembættinu. Árið 2009 voru þau svo orðin 759. Á síðasta ári voru um 1600 tilfelli tilkynnt og það sem af er þessu ári eru þau orðin rúmlega 1300.

Taka verður mið af því við skoðun talna um fjölda skráðra smita að bætt tölvuvinnsla og utanumhald gagna hjá embættinu undanfarin ár hefur orðið til þess að yfirsýnin er orðin betri um hvað læknar landsins eru að greina.

Mesta hættan á njálgssmiti er á morgnana þar sem að kvenormurinn verpir eggjum við endaþarm fólks á nóttunni og vegna kláða sem stafar af því er hætta á að fólk klóri sér og smit berist svo með höndum. Þegar grunur leikur á smiti er best að skoða endaþarmsopið snemma morguns og ef um barn er að ræða þá er best að gera það áður en það vaknar.

Til að ráða niðurlögum njálgs þarf lyfjameðferð en besta smitvörnin er handþvottur og almennt hreinlæti. „Það er mjög gott að setja börn sem að eru með þessi einkenni og náttúrulega bara alla í sturtu á morgnana. Skipta oft um nærföt og náttföt og þvo þau á góðum hita í þvottavélinni“ segir Ása.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×