Innlent

Skattar á lágtekjufólk ekki hækkaðir

Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, mun boða breytingar á skattkerfinu þegar fjárlagafrumvarpið verður lagt fram í næstu viku. Skattar á láglauna- og millitekjufólk verða ekki hækkaðir.

Útgjalda- og tekjuhlið fjárlagafrumvarpsins verða í fyrsta skipti lagðar fram samtímis þegar Alþingi kemur saman í næstu viku. Ríkisstjórn Jóhönnu og Steingríms tók upp þrepaskipt skattkerfi á síðasta kjörtímabili en í stjórnarsáttmála núverandi ríkisstjórnar kemur fram að tekjuskattskerfið verði tekið til endurskoðunar.

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra lýsti yfir efasemdum með þrepakerfið í aðdraganda kosninga og sagðist vilja einfalda kerfið . „Við erum með ákveðnar breytingar sem fylgja fjárlagafrumvarpinu og þetta verður kynnt þegar fjárlögin koma fram. Ég get þó sagt að það er algjörlega úr lausu lofti gripð sem ég hef heyrt í umræðunni um að það standi til að hækka skatta á láglauna- og millitekjufólk,“ segir Bjarni.

Hann segir breytingarnar verði gerðar í skrefum. „Ég er bæði að horfa til fjárlagavetrarins framundan, þ.e. fjárlaga næsta árs og líka til lengri tíma í þessu fjárlagafrumvarpi. Við verðum með fyrstu breytingar í ákveðnum málum og síðan ætlum við að setja af stað vinnu til að skoða skattkerfið til lengri tíma.“

Bjarni segir að þrepakerfið verði ekki aflagt í þessum fjárlögum en vill ekki svara því hvort þrepum verði fækkað eða breytt með einhverjum hætti. „Þetta eitthvað sem ég vil kynna í einu lagi þegar fjárlagafrumvarpið kemur fram,“ segir Bjarni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×