Innlent

Fiskistofu gert að eyða gögnum

Jakob Bjarnar skrifar
Njósnir í Njarðvíkurhöfn. Fiskistofa aflaði gagna um meint brot gegn fiskveiðilögsögunni með falinni myndavél. Myndin tengist fréttinni ekki að öðru leyti en því að hún er frá Njarðvíkurhöfn.
Njósnir í Njarðvíkurhöfn. Fiskistofa aflaði gagna um meint brot gegn fiskveiðilögsögunni með falinni myndavél. Myndin tengist fréttinni ekki að öðru leyti en því að hún er frá Njarðvíkurhöfn. Pjetur
Persónuvernd sendi nýlega frá sér úrskurð í kærumáli manns sem gripinn var við meint brot á fiskveiðilöggjöfinni. Fiskistofa beitti falinni myndavél en Persónuvernd hefur úrskurð um ólögmæti slíkra rannsóknaraðferða.

Maðurinn sem heitir Sigvaldi Hólmgrímsson kærði Fiskistofu til Persónuverndar fyrir að hafa notað falda myndavél við að koma upp um meint brot hans á fiskveiðilöggjöfinni. Atvikið átti sér stað í Njarðvíkurhöfn. Persónuvernd hefur tekið kæru Sigvalda til athugunar og nú liggur fyrir úrskurður sem felur í sér að Fiskistofu er gert að eyða gögnum sem aflað var með þessum hætti. Spurt er hvort þetta bindi ekki hendur Fiskistofu vilji hún koma í veg fyrir brot sem þessi? Eyþór Björnsson er Fiskistofustjóri:

„Ég myndi kannski ekki orða það þannig. Þetta er mikilvæg löggjöf sem Persónuvernd er að framfylgja þarna. En, eftirlit með myndavélum er gríðarlega mikilvægt fyrir Fiskistofu. Við þurfum mjög á því að halda að geta beitt myndavélum í okkar eftirliti.“

Að sögn Eyþórs eru allir eftirlitsmenn Fiskistofu búnir myndavélum til að geta tekið ljósmyndir og eins myndbandsbrot. En, almennt er ekki verið að nota myndavélar sem og í þessu tilfelli sem Persónuvernd var að úrskurða um.

Úrskurðurinn virðist ávísun á að illmögulegt sé að koma upp um brot af þessu tagi. „Þetta er mjög erfiður málaflokkur. Erfitt að upplýsa brot ef við megum ekki nota myndavélar. Gerir okkur erfitt fyrir. Það er svo mikilvægt fyrir okkur að átta okkur á því hvernig aðilar haga sér við að fremja brotin svo við getum gripið inní og stöðvað þau brot.“

Gríðarlegir hagsmunir eru í húfi. „Það er erfitt að meta það nákvæmlega en auðvitað höfum við staðið aðila að framhjálöndun, þar sem ákveðnu magni hefur verið skotið fram hjá vigt. Þetta eru miklar upphæðir og ef slík brot eiga sér stað yfir langt tímabil, þá erum við að tala um mjög miklar upphæðir,“ segir Eyþór Björnsson.

Yfirskrift skeytis sem fréttastofu barst frá Sigvald Hólmgrímssyni, þar sem hann vakti athygli á þessum athyglisverða úrskurði, var með yfirskriftinni Njósnir í Njarðvíkurhöfn. Þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir tókst ekki að ná tali af Sigvalda og fá hans útleggingu á niðurstöðunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×