Innlent

Unnu skemmdarverk á golfvelli á vélhjólum

Jón Júlíus Karlsson skrifar
Jaðarsvöllur á Akureyri.
Jaðarsvöllur á Akureyri. Myndir/GA
Skemmdarverk voru unnin á þriðju flöt Jaðarsvallar á Akureyri í gærkvöldi. Ungir menn á vélhljólum gerðu sér það að leik að hjóla yfir flötina með þeim afleiðingum að talsverð sár komu í flatirnar sem munu taka sinn tíma að gróa um heilt.

Skemmdarverkið var framið í ljósaskiptunum í gærkvöldi og voru enn kylfingar á vellinum þegar ungu mennirnir þeystust á þriðju flötinni á vélhjólum. Lögreglan var kölluð á vettvang sem náði ökumönnunum. Málið er í rannsókn hjá lögreglunni á Akureyri.

Að sögn Höllu Sif Svavarsdóttur, framkvæmdastjóra Golfklúbbs Akureyrar, eru skemmdirnar talsverðar og koma einnig á slæmum tíma. „Gróðurinn er mjög viðkvæmur núna og það sést vel að þeir spóla ofan í jörðina á flötinni. Það eru allir velkomnir á Jaðarsvöll en ekki á þessum forsendum,“ segir Halla Sif.

Undanfarin sumur hafa verið erfið fyrir kylfinga á Akureyri. Miklar kalskemmdir hafa orðið á vellinum á undanförnum þremur árum og því hjálpar þetta skemmdarverk ekki fyrir.

Hér má sjá skemmdirnar á þriðju flöt á Jaðarsvelli.Mynd/GA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×