Innlent

Sláandi stökk milli skólastiga

Þorgils Jónsson skrifar
Neysla á tóbaki, áfengi og vímuefnum í grunnskólum landsins hefur dregist ört saman síðustu árin og er ástandið hér á landi nú með því allra besta sem gerist í samanburði við önnur lönd.

Þetta kemur fram í nýrri könnun sem framkvæmd var af Rannsókn og greiningu (R&G) við Háskólann í Reykjavík í ár og tók til allra nemenda á mið- og eldra stigi grunnskóla landsins og allra framhaldsskólanema, og var kynnt á fjölmennum morgunverðarfundi forvarnahópsins Náum áttum í gær. Þó varpa niðurstöðurnar ljósi á að víða sé pottur brotinn í neyslumynstri íslenskra ungmenna, sérstaklega hvað varðar stökkið milli grunnskóla og framhaldsskóla.

Margrét Lilja Guðmundsdóttir, hjá R&G, fjallaði um niðurstöðurnar í erindi sínu og benti meðal annars á að á meðan fimm prósent 10. bekkinga síðasta vor sögðust hafa orðið ölvuð síðustu 30 daga, svöruðu 35 prósent sextán og sautján ára framhaldsskólanema þessari spurningu játandi. Þá höfðu sjö prósent 10. bekkinga prófað að neyta maríjúana samanborið við fimmtán prósent í hópi sextán og sautján ára.

Margrét Lilja segir í samtali við Fréttablaðið að sú forvarnarvinna sem unnin sé, skili sér greinilega, en þarna verði greinileg viðhorfsbreyting milli skólastiga, bæði í hópi foreldra og ungmenna, sem vinna þurfi á.

„Þegar komið er upp í framhaldsskólana segja krakkarnir að þau verði vör við breytt viðhorf heima fyrir og að foreldrarnir gefi þeim lausari tauminn.“

Margrét segir að þörf sé á því að skýra stefnu varðandi framhaldsskólana og hlutverk þeirra í forvarnarmálum.

„En svo snýst þetta auðvitað um okkur foreldrana og að við eigum ekki að sætta okkur við það að börn undir sjálfræðisaldri séu að drekka áfengi.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×