Innlent

Úttekt á aðildarviðræðum, með eða án ríkisstjórnar

Gunnar Valþórsson skrifar
Þorsteinn Víglundsson segir að með úttektinni sé ætlunin að kanna stöðu viðræðnanna en einnig að varpa ljósi á þá kosti sem þjóðin standi frammi fyrir.
Þorsteinn Víglundsson segir að með úttektinni sé ætlunin að kanna stöðu viðræðnanna en einnig að varpa ljósi á þá kosti sem þjóðin standi frammi fyrir.
Alþýðusamband Íslands, Samtök atvinnulífsins og Viðskiptaráð Íslands hafa í sameiningu ákveðið að standa fyrir úttekt á aðildarviðræðum við Evrópusambandið, þróun ESB og valkostum í efnahagsmálum.

Í sameiginlegri yfirlýsingu segjast samtökin telja æskilegt að aðildarviðræðum við ESB verði lokið og að besti fáanlegi samningur um aðild verði borinn upp í þjóðaratkvæðagreiðslu.Samtökin óska eftir samstarfi við stjórnvöld við gerð úttektarinnar en slík úttekt var eitt af ákvæðunum í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar auk þess sem Gunnar Bragi Sveinsson hefur lýst því yfir að stjórnvöld séu í viðræðum við Hagfræðistofnun Háskóla Íslands um úttekt á aðildarviðræðunum við ESB. Það er hinsvegar mat samtakanna að þessar tvær úttektir geti vel farið saman.

Í samtali við Fréttablaðið í dag segir Þorsteinn Víglundsson formaður SA að með úttektinni sé ætlunin að kanna stöðu viðræðnanna en einnig að varpa ljósi á þá kosti sem þjóðin standi frammi fyrir þegar kemur að peningamálum og enfahagsumgjörð. Í yfirlýsingu samtakanna er þess einnig getið að telji stjórnvöld ekki ávinning af slíku samstarfi muni samtökin engu að síður standa fyrir úttekt á þessum málum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×