Innlent

Kennarar sprengdu Iðnó utan af sér

Heimir Már Pétursson skrifar
mynd/anton brink
Troðfullt var út úr dyrum á baráttufundi grunnskólakennara í Iðnó í gærkvöldi. Færri komust inn í húsið en vildu og stóð fjöldi fólks fyrir utan húsið á meðan á fundinum stóð. Geirlaug Ottósdóttir kennari í Háaleitisskóla var meðal fundarmanna. Hún segir að mikill hugur hafi verið í kennurum á fundinum og mætingin á fundinn framar vonum.

„Kennarar eru orðnir langþreyttir á laununum sínum og aðbúnaði. Það sem við þurfum fá núna er ekki eingöngu launahækkun heldur leiðréttingu á okkar kjörum til jafns við annað háskólamentað fólk,“ segir Geirlaug.

En á fundinum kom fram að Íslendingar greiði mest allra OECD ríkja til grunnskóla en launin endurspegli ekki þá staðreynd. Laun kennara hafi ekkert hækkað á undanförnum árum umfram mjög litlar almennar launahækkanir samkvæmt kjarasamningum. Meðallaun háskólamenntaðra starfsmanna á íslandi eru 465 þúsund krónur á mánuði en meðallaun kennara eru um 350 þúsund krónur á mánuði.

En telur Geirlaug að líkur séu á verkfalli kennara verði ekkert að gert?

„Nú á samninganefndin eftir að vinna sína vinnu og ég get auðvitað ekki svarað fyrir hana. Það eina sem ég veit er að við getum ekki lengur unað við þessi laun. það verður eitthvað að fara að gerast,“ segir Geirlaug.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×