Innlent

Framkvæmdir á Lýsisreit: „Undirskriftir duga ekki til að stoppa krana og jarðýtur“

Erla Björg Gunnarsdóttir skrifar
Guðni Th. Jóhannesson er einn þeirra sem ekki er sáttur við framkvæmdirnar á Lýsisreit
Guðni Th. Jóhannesson er einn þeirra sem ekki er sáttur við framkvæmdirnar á Lýsisreit Mynd/Pjetur
Ekki er enn búið að ganga frá leyfisveitingum til að hefja framkvæmdir á Lýsisreit í Vesturbænum en undirbúningur fyrir framkvæmdir eru komnar á fullt. Fyrirhugað er að byggja nær 150 íbúða fjölbýlishús á allt að níu hæðum á svæðinu.



Íbúar í nágrenninu hafa reynt að koma í veg fyrir framkvæmdirnar sem þeir segja að meðal annars eyðileggi ásýnd hverfisins og komi rót á umferðarmál.

Guðni Th. Jóhannesson er íbúi í hverfinu og stóð fyrir undirskriftarsöfnun gegn framkvæmdunum. Undirskriftirnar voru afhentar borgaryfirvöldum í lok ágúst.

„Undirskriftir duga ekki til að stoppa kranana og jarðýturnar. Við gengum á fund Dags B. Eggertssonar sem tók vel á móti okkur og tók undir ýmis sjónarmið. En þarna blandast saman ásetningur um þéttingu byggðar og deiliskipulag sem er höggið í stein og vonlaust að breyta þegar það er búið að samþykkja það,“ segir Guðni og bætir við að þetta sé bara eitt háhýsið í hverfið, það verði líka byggt við Mýrargötu og Slippinn. „Það er allavega nóg framboð af rándýrum íbúðum í Vesturbænum.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×