Innlent

"Fæ vonandi að gera fleiri myndir“

Þórhildur Þorkelsdóttir skrifar
Benedikt Erlingsson hlaut í gærkvöldi verðlaun sem besti nýi leikstjórinn á San Sebastián kvikmyndahátíðinni á Spáni. Verðlaunin fékk Benedikt fyrir kvikmynd sína, Hross í oss. Benedikt segist vona að verðlaunin verði til þess að hann geti gert fleiri kvikmyndir á næstu árum.

Hross í oss er fyrsta kvikmynd Benedikts í fullri lengd. Myndin er grimm sveitarómantík um hið mennska í hrossinu og hrossið í manninum. Ást, kynlíf, hross og dauði fléttast saman í myndinni auk þess sem örlagasögur af fólki í sveit sjást frá sjónarhóli íslenska hestsins.

Verðlaunin eru mjög eftirsótt, en Benedikt fékk 50.000 evrur í verðlaunafé, eða rúmar átta milljónir króna. Er það með hæsta verðlaunafé sem hægt er að hljóta á kvikmyndahátíðum. Benedikt mun deila verðlaunafénu með spænskum dreifiaðila, sem þýðir jafnframt að Hross í oss hefur verið tryggð dreifing á Spáni. Benedikt segir að myndin hafi heillað dómnefndina upp úr skónum.

„Ég var að vísu frekar skeptískur á þetta til að byrja með þar sem myndin er svona frekar mikið öðruvísi en gengur og gerist. En það varð bara til þess að dómnefndinni líkaði betur við hana og mig sem leikstjóra. Þetta er alveg uppáhaldsdómnefndin mín núna. Ég bjóst ekki við þessu og er virkilega ánægður," segir Benedikt.

En hvað þýðir þetta fyrir myndina?

„Þetta þýðir það að þessi mynd fær mikla vængi. Hún mun komast í bíóhús og dreifingu um allan heim. Þetta verður ekki bara einhver festivalamynd, heldur mun hún fara í almennar sýningar og fá fullt af áhorfendum. Það er sjaldgæft fyrir íslenskar myndir. Nú vinnum við bara hörðum höndum að því að dreifa henni og gera allt rétt.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×