Innlent

Vímuefnið Mollý: Lögreglan kemur höndum yfir lítið magn

Hrund Þórsdóttir skrifar
Eins og fram kom í fréttum Stöðvar 2 í gær nýtur vímuefnið Mollý, eða MDMA, mikilla vinsælda hjá ungu fólki á Íslandi og má jafnvel tala um tískubylgju.

Við ræddum við mann sem stundaði sölu á MDMA í mörg ár og hann hafði meðal annars þetta að segja:

„Það eru allir búnir að vera að moka þessu í sig eftir að allir hættu að moka í sig kóki, því kók var cool, en núna er þetta cool.“

Grammið af MDMA dugar í nokkra skammta og segir þessi fyrrum sölumaður efnisins að verðið á því á götunni í dag sé á bilinu 15 til 20 þúsund krónur.

Við efnahagshrunið minnkaði notkun þessara efna mikið en að sögn yfirlæknis á Vogi hefur hún aftur aukist verulega á síðustu tveimur árum og hefur MDMA fíklum á Vogi fjölgað hratt frá árinu 2011.

Í grunni Ríkislögreglustjóra er MDMA skráð sem ecstasy og ekki aðgreint frá skyldum efnum, en áhugavert er að skoða tölur yfir magn efnisins sem lagt hefur verið hald á. Á árunum 2006 til 2012 lagði lögreglan minnst hald á 2100 töflur á einu ári, en mest 78.099 stykki. Þó ber að hafa í huga að eitt eða fleiri stór mál geta haft mikil áhrif á tölurnar og hefur skútumálið svokallaða, þar sem lagt var hald á mikið magn efna, til dæmis mikil áhrif á tölur ársins 2007. Á fyrri hluta þessa árs lagði lögregla hins vegar aðeins hald á 54 töflur.

Efnin eru ýmist mæld í stykkjatali eða grömmum eftir því hvernig formi þau eru á þegar lagt er hald á þau og sama er uppi á teningnum ef skoðaðar eru tölur yfir haldlögð grömm af efni á duftformi. Árið 2009 sker sig reyndar úr, þegar aðeins var lagt hald á 4,8 grömm en annars var magnið frá 83 og hálfu upp í 14.083,3 grömm á sömu árum. Á fyrri hluta þessa árs náðust aðeins 42 grömm.

Samkvæmt heimildum okkar er MDMA mikið notað vímuefni og því líklegt að umtalsvert magn sé í umferð. Því má spyrja sig, af hverju nær lögreglan ekki að leggja hald á meira af því?

Karl Steinar Valsson, yfirmaður fíkniefnadeildar lögreglunnar, segir að undanfarnar vikur hafi magn þessa efnis í umferð aukist. Það sé vinsælt inni á skemmtistöðum og hugsanleg skýring á litlu haldlögðu efni sé að lögreglan hafi lítið verið þar í aðgerðum sínum. Hann bendir þó á að undir lok síðasta árs hafi fundist 40 þúsund e töflur í Kaupmannahöfn sem talið er að hafi verið á leið til Íslands.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×