Innlent

Ákvörðun LÍN um að framfylgja ekki dómi veldur óvissu hjá foreldrum í námi

María Lilja Þrastardóttir skrifar
Mikið óvissuástand ríkir á meðal háskólanema á meðan beðið er eftir því að Lánasjóðurinn áfrýji nýföllnum dómi um breytingar á úthlutunarreglum.

Foreldrar í háskólanámi segja óvissuna setja dæld í fjölskyldulífið og telja stjórnvöld fara fram af mikilli vanvirðingu við námsmenn, dæmi eru um að fólk hætti námi vegna ástandsins.

Breytingar á úthlutunarreglum Lánasjóðs Íslenskra Námsmanna voru dæmdar ólögmætar í héraðsdómi á dögunum. Lánasjóðurinn má, samkvæmt dómnum, ekki gera kröfu um fleiri en 18 einingar á önn til framfærslu en til stóð að hækka einingafjöldan í 22.

Lánasjóðurinn hefur þó ekki enn framfylgt dómi héraðsdóms, nú tæpum tveimur vikum eftir að dómur féll. Skýringin er að sögn forsvarsmanna Lín sú að til standi að áfrýja dómnum en til þess hefur sjóðurinn þrjár vikur.

Verði áfrýjunin að veruleika munu námsmenn þurfa að bíða fram í október eftir niðurstöðu Hæstaréttar, fái málið flýtiafgreiðslu.

Nemendur háskólanna eru vegna þessa í nokkrum vanda staddir. Frestur til þess að bæta við sig einingum rann út í gær og ljóst er að millibilsástand þetta setur marga í erfiða stöðu og dæmi er um að fólk hverfi úr námi vegna ástandsins.

Snærós Sindradóttir er laganemi á fyrsta ári almennrar lögfræði. Nám Snærósar býður ekki upp á fleiri en 18 einingar á önn, en samkvæmt nýföllnum dómi ætti hún að eiga rétt á fullri framfærslu.

Hún getur þó ekki sótt um slíka á meðan LÍN framfylgir ekki dóminum.

„Ég er með tvö börn heima, aðra hverja viku og það krefst þess að ég er í hundrað prósent vinnu, með náminu. Það kemur auðvitað niður á börnunum að ég skuli vera í vaktavinnu á næturnar og kvöldin, til þess að geta komist í tíma. Þannig að þetta hefur bara hellings áhrif,“ segir Snærós.

„Þetta er ótrúlegt virðingarleysi fyrir fólkiog menntamálaráðuneytið og LÍN eru ekki að starfa í þágu námsmanna, heldur einmitt á móti þeim. Við á móti þeim.“

Sindri Geir Óskarsson, guðfræðinemi er í svipaðri stöðu en hann og unnusta hans, sem einnig er í námi, eignuðust barn í sumar.

„Þegar við komumst að því, síðasta vetur að við ættum von á barni í sumar þá ákváðum við að taka fleiri einingar til þess að geta nýtt þær og verið bara heima með barnið. Svo þegar kemur í ljós að eigi breyta úthlutunarreglum óttuðumst við að fá engin námslán. Þetta er bara atlaga að námsmönnum. Maður skilur ekki hvað þau eru að hugsa.“ 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×