Innlent

Kona á brjóstunum auglýsir íslenskt Lýsi

Boði Logason skrifar
„Það er náttúrulega mikill menningarmunur á mismunandi mörkuðum,“ segir Katrín forstjóri Lýsis.
„Það er náttúrulega mikill menningarmunur á mismunandi mörkuðum,“ segir Katrín forstjóri Lýsis. Mynd/samsett
„Ég hefði nú ekki látið þetta fara frá okkur, ég held að þetta hvorki passi né virki fyrir litla Ísland,“ segir Katrín Pétursdóttir, forstjóri Lýsis, um auglýsingu fyrir íslenska undrameðalið sem sýnd var í sjónvarpi í Rúmeníu í fyrra.

Í myndbandi sem finna má á Youtube sést hvernig hálfnakin kona er máluð fyrir auglýsinguna og í lokin heldur hún svo á Krakkalýsi með bros á vör.

Katrín segir að íslenski framleiðandinn komi ekki nálægt markaðsetningu á Lýsi annars staðar en á Íslandi enda sé það selt í yfir 70 löndum.

„Það er náttúrulega mikill menningarmunur á mismunandi mörkuðum. Við vitum ómögulega hvað gengur á í Kína, Póllandi eða Rúmeníu. Þetta er í höndum umboðsaðilana sem annast dreifinguna og markaðssetningu í löndunum þar sem Lýsi er selt. Ég skal ekki segja hvað mér finnst um þessa auglýsingu en við myndum ekki láta þetta frá okkur hér á heimamarkaði, kannski endurspeglar þetta þennan menningarmun.“

Aðspurð hvort að íslenski framleiðandinn hafi ekki alltaf lokaorðið segir hún ekki svo vera. „Ekki varðandi markaðssetninguna, við tryggjum að varan sé 100% og við förum líka fram á að markaðsaðilarnir fylgi reglum í viðkomandi landi,“ segir hún.

Fyrir nokkrum árum gerði hinsvegar Lýsi athugasemdir við auglýsingu sem átti að sýna í Kóreu. „Þá voru einhverjar stúlkur í netasokkabuxum, ég sagði bara: Guð minn góður, ég ætla ekki að láta þetta frá mér svona. Þeir urðu eiginlega hálfmóðgaðir, ég veit ekki en kannski þykir þetta voðalega smart þarna.“

Myndbandið má sjá hér fyrir neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×