Innlent

„Virðist sem stefna borgarstjórnar sé að gera Reykjavíkurflugvöll óstarfhæfan“

Haukur Viðar Alfreðsson skrifar
FÍA telur hugmyndir um að loka annarri aðalflugbraut vallarins þýða að nýtingarstuðullinn fari niður fyrir þann sem ásættanlegur sé til flugreksturs.
FÍA telur hugmyndir um að loka annarri aðalflugbraut vallarins þýða að nýtingarstuðullinn fari niður fyrir þann sem ásættanlegur sé til flugreksturs. mynd/stefán
Félag íslenskra atvinnuflugmanna (FÍA) hefur sent frá sér yfirlýsingu vegna flugvallarmálsins og í henni segir að svo virðist sem stefna borgarstjórnar Reykjavíkur sé að gera Reykjavíkurflugvöll óstarfhæfan.

FÍA segist undrast þá stefnu borgarstjórnar Reykjavíkur að vega að atvinnustarfsemi og störfum í Reykjavík, bæði vegna félagsmanna sinna, sem og annarra.

„Á þetta ekki síst við í ljósi þess efnahagsástands sem við búum við,“ segir í yfirlýsingunni. „Með fyrirhugaðri lokun flugbrautar eða flugvallarins í heild sinni tapast störf og starfsemi þeirra fyrirtækja er þar starfa. Bein afleiðing þess er aukið atvinnuleysi og minnkandi tekjur.“

Þá telur FÍA hugmyndir um að loka annarri aðalflugbraut vallarins þýða að nýtingarstuðullinn fari niður fyrir þann sem ásættanlegur sé til flugreksturs og muni marka endalok flugreksturs í Reykjavík þekkist í dag.

Yfirlýsing FÍA í heild sinni:

Svo virðist vera að stefna borgarstjórnar Reykjavíkur sé að gera Reykjavíkurflugvöll óstarfhæfan, án þess að hafa haldbæra lausn á því vandamáli. Ekki hefur verið tekið tillit til álits fagaðila í þessu umfangsmikla máli þrátt fyrir skýrslur og ráðstefnur um málið.

FÍA undrast þá stefnu borgarstjórnar Reykjavíkur að vega að atvinnustarfsemi og störfum í Reykjavík, bæði vegna félagsmanna sinna, sem og annarra. Á þetta ekki síst við í ljósi þess efnahagsástands sem við búum við. Með fyrirhugaðri lokun flugbrautar eða flugvallarins í heild sinni tapast störf og starfsemi þeirra fyrirtækja er þar starfa. Bein afleiðing þess er aukið atvinnuleysi og minnkandi tekjur.

Hugmyndir um að loka annarri aðalflugbraut Reykjavíkurflugvallar, eins og gert hefur verið ráð fyrir í aðalskipulagi Reykjavíkurborgar, þýðir einfaldlega að nýtingarstuðullinn fer niður fyrir þann sem ásættanlegur er til flugreksturs og mun marka endalok flugreksturs í Reykjavík sem við þekkjum í dag. Að loka Reykjavíkurflugvelli án þess að hafa annan sambærilegan flugvöll í hans stað er óábyrgt.

FÍA undrast að enn og aftur beinist umræðan að flugvelli á Hólmsheiði sem fýsilegum kosti, þrátt fyrir að fram hafi komið upplýsingar um að Hólmsheiði uppfylli alls ekki kröfur sem gerðar eru til flugvallarstæðis. Þar má nefna skýrslu Isavia um hugsanlegan flutning vallarins á Hólmsheiði.

Ennfremur bendir FÍA á að Reykjavíkurflugvöllur gegnir mikilvægu hlutverki sem varavöllur fyrir Keflavíkurflugvöll. Að sama skapi gegnir Keflavíkurflugvöllur mikilvægu hlutverki sem varavöllur fyrir Reykjavíkurflugvöll, sem er forsenda fyrir innanlandsflugi um Reykjavíkurflugvöll.

Ljóst er að ef innanlandsflug og sjúkraflug, eins og við þekkjum í dag, eigi að vera til staðar í framtíðinni, þarf til þess flugvöll og er enginn annar hentugri en sá sem fyrir er í Vatnsmýrinni, enn sem komið er. Einnig vill FÍA minna á að Reykjavíkurflugvöllur gegnir mikilvægu hlutverki í almannavörnum Íslands.

FÍA lýsir yfir eindregnum stuðningi við hópinn „Hjartað Í Vatnsmýri“ og hvetur alla landsmenn til að kynna sér efnið á síðunni www.lending.is.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×