Innlent

Heila- og taugaskurðlæknir: "Flugvöllurinn í Vatnsmýrinni má ekki fara"

Hrund Þórsdóttir skrifar
Hátt í 50 þúsund manns hafa farið fram á að flugvöllurinn verði kyrr, á síðunni lending.is.
Hátt í 50 þúsund manns hafa farið fram á að flugvöllurinn verði kyrr, á síðunni lending.is.
 Margir vilja hafa flugvöllinn áfram í Vatnsmýrinni af öryggisástæðu og telja ómögulegt að sinna sjúkraflugi öðruvísi. En hvað skyldi vera til í þessu og eru aðrar lausnir mögulegar?

Arnar Ástráðsson hefur mikla reynslu af sjúkraflugi vegna starfa sinna sem sérfræðingur í heila- og taugaskurðlækningum í Danmörku og sem héraðslæknir víðs vegar í Noregi. Hann segir að flugvöllur verði að vera nálægt Landspítalanum og kveðst ekki hafa heyrt um neina raunhæfa kosti aðra en Vatnsmýrina. „Keflavíkurflugvöllur er of langt frá Landspítalanum, hann myndi ekki henta til sjúkraflugs því þá er ennþá eftir 45 mínútna landleið,“ segir Arnar.

Hann segir þá staðreynd að á Íslandi sé aðeins eitt hátæknisjúkrahús kalla á skilvirkt sjúkraflug. Sumt megi leysa með þyrlum, einkum þegar sækja þurfi fólk á torfarnar slóðir, en þyrlur henti afar illa í öðrum tilfellum. „Sem dæmi má nefna brátt höfuðslys. Þar má flutningstími kannski vera klukkutími en ef hann er kominn upp í tvo til þrjá klukkutíma, eins og þetta tekur nú með þyrlu, er maður held ég farinn að missa ansi marga sjúklinga á þeim tíma,“ segir hann.

Í Noregi var búið til módel yfir sjúkraflutninga og þar kemur fram hvar er nóg að hafa sjúkraþyrlu til taks og hvar er nauðsynlegt að hafa bæði sjúkraflugvél og þyrlu, allt eftir fjarlægð á næsta hátæknisjúkrahús. Arnar segir að Íslendingar ættu að ræða við nágranna sína í Noregi því þarlent skipulag gæti hentað vel við íslenskar aðstæður. „Mér finnst umræðan einkennast svolítið af tilfinningum og þekkingarleysi. Það ætti bara að bera allar staðreyndir á borðið og komast að skynsamlegri niðurstöðu fyrir alla landsmenn og ég held að flugvöllurinn í Vatnsmýrinni megi ekki fara,“ segir Arnar að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×